Ryðja þarf hindrunum úr vegi fjárfestingar – Skattadagur SA, Deloitte og Viðskiptaráðs
Til að hægt sé að auka framleiðslugetu hagkerfisins, skapa nýjar stoðir útflutnings og fjölga störfum til að byggja undir aukinn kaupmátt heimila þarf að fjárfesta í innviðum og framleiðslutækjum. Arðbær fjárfesting er undirstaða framtíðarhagvaxtar. Nauðsynlegt er því að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem kunna að standa í vegi aukinnar fjárfestingar. Þannig verður stutt við áframhaldandi lífskjaravöxt.
Fjárfesting í lægð fyrir farsótt
Á árunum fyrir fjármálahrun var mikill kraftur í fjárfestingu enda hagvöxtur mikill. Fjárfesting og hagvöxtur haldast jafnan í hendur. Snarpur samdráttur varð í fjárfestingu í kjölfar hrunsins og varð framlag hennar til hagvaxtar neikvætt um frá 2007 til 2010. Fjárfesting tók við sér á ný í takt við endurreisn efnahagslífsins en náði þó ekki fyrri krafti áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Enn frekari samdráttur varð árið 2020 en ætla má að samdrátturinn nemi 18% milli ára. Það er hins vegar ljóst að þegar var tekið að hægja á. Áhrif veirunnar voru til að reka smiðshöggið á þróun síðustu ára.
Hið opinbera dregur áfram vagninn en meira þarf til
Allajafna eru það atvinnuvegirnir sem fara fyrir megninu af fjárfestingu í hagkerfinu. Síðustu misseri hafa hið opinbera og íbúðafjárfesting hins vegar dregið vagninn. Í ljósi þess að stjórnendur fyrirtækja vænta ekki mikilla fjárfestinga á næstunni og fyrirséð er að enn muni draga úr íbúðafjárfestingu má ætla að hið opinbera muni bera uppi vöxt fjárfestingar á næstu misserum. Þrátt fyrir boðað fjárfestingarátak hins opinbera er þó ekki útlit fyrir að fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu nái langtímameðaltali á næstu árum.
Ísland er gott en margt má bæta
Í alþjóðlegum samanburði kemur Ísland sæmilega út þegar kemur að rekstrarumhverfi fyrirtækja, enda með sterka innviði og hátt menntunarstig. Ísland er hins vegar eftirbátur samanburðarríkja þegar kemur að milliríkjaviðskiptum, öflun byggingarleyfa og öflun lánsfjár. Þá telst íslenska skattkerfið lítt samkeppnishæft í alþjóðlegum samanburði. Fjöldi tvísköttunarsamninga er aðeins tæpur helmingur á við það sem þekkist á Norðurlöndum. Tækifæri til umbóta í fjárfestingarumhverfi liggja víða.
Mörg jákvæð skref hafa verið stigin að undanförnu í því skyni að örva fjárfestingu hérlendis. Þar ber hæst stóraukinn stuðningur við nýsköpun, rannsóknir og þekkingargeira. Slíkur beinn stuðningur er jákvæður og til þess fallin að auka hagsæld þegar fram líða stundir. Mestu máli skiptir þó að skapa almennt hagfelld skilyrði fyrir rekstur og þar af leiðandi fjárfestingu og atvinnusköpun.
Um árlegan Skattadag SA, Deloitte og Viðskiptaráðs
Skattadagurinn er haldinn árlega í góðu samstarfi Deloitte, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands. Viðburðurinn hefur fest sig í sessi hjá einstaklingum og fyrirtækjum sem vilja hlýða á það nýjasta sem er að gerast í skattamálum hverju sinni.
Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, ræddi um hindranir í vegi fjárfestinga líkt og má sjá í samantektinni hér að ofan, á fundinum. Á meðal annarra ræðumanna voru Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, Hrefna Björk Sverrisdóttir, eigandi veitingastaðarins Rok á Skólavörðustíg, Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis, Haraldur I. Birgisson, meðeigandi í Deloitte og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju.