RÚV biður Múr- og málningarþjónustuna afsökunar

Fréttastofa RÚV hefur beðist velvirðingar á að hafa ranglega tengt aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins, Múr- og málningarþjónustuna, við brotastarfsemi í atvinnurekstri.

Í sjónvarpsþættinum Kveik sem sýndur er á RÚV og fjallaði um slæman aðbúnað og kjör erlends starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði voru birtar myndir frá starfsemi Múr- og málningarþjónustunnar og í fréttum í kjölfar þáttarins var merki fyrirtækisins sýnt. Fyrirtækið andmælti að vera tengt með þessum hætti við brot á erlendu launafólki og baðst fréttastofa RÚV velvirðingar á þeim mistökum.

Umfjöllun fjölmiðla um stöðu launafólks á íslenskum vinnumarkaði er mikilvæg og veitir atvinnurekendum aðhald. Það verður hins vegar að gera þá kröfu að umfjöllun sé málefnaleg og einstök fyrirtæki ekki tengd brotastarfsemi nema sýnt hafi verið fram á brot þeirra.