Ríkisstjórnin hefur skapað vantraust

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands fjalla nú um hvernig forsendur kjarasamninganna frá 5. maí sl. hafa gengið eftir en samkvæmt opnunarákvæði þeirra þarf að tilkynna viðsemjendum í síðasta lagi 20. janúar um uppsögn ef það er niðurstaða annars hvors samningsaðilanna. SA og ASÍ hafa fundað nokkrum sinnum um framvindu mála frá undirritun samninganna og fundarhöld verða áfram í þessari og næstu viku.

Forsendur kjarasamninganna eru í meginatriðum fjórar: Kaupmáttur þarf að hafa vaxið, verðlag hafa verið stöðugt, gengi krónunnar styrkst marktækt og stjórnvöld staðið við gefin fyrirheit. Kaupmáttur hefur vaxið umtalsvert og verðbólga hefur farið minnkandi eftir verðbólguskot á fyrstu mánuðunum í fyrra. Gengi krónunnar hefur lítið styrkst en innflæði af erlendu fjármagni vegna fjárfestinga er helsta forsendan fyrir styrkingu hennar og hefur ekki gengið eftir. Sé eingöngu litið til þessara þriggja þátta í samhengi er ekkert tilefni til endurskoðunar kjarasamninga.

Raunverulegt tilefni er til opnunar kjarasamninga vegna sérlega slakrar frammistöðu ríkisstjórnarinnar við að standa við gefin fyrirheit í yfirlýsingu í tengslum við gerð þeirra. SA hafa sent forsætisráðherra bréf með lista yfir 36 atriði sem koma fram í yfirlýsingunni og hvernig staðið hefur verið við þau fyrirheit.

Yfirlitið sýnir að í 24 atriðum af 36, eða í tveimur þriðju tilvika, hefur ríkisstjórnin ekki efnt það sem fram kom í yfirlýsingunni. Í 7 atriðum hafa mál gengið eftir eins og um var talað en í 5 atriðum eru mál enn í gangi og gæti hugsanlega lokið farsællega.

Afdrifaríkast er að fjárfestingar í atvinnulífinu og opinberar framkvæmdir hafa ekki aukist eins og stefnt var að. Síðustu efnahagsspár gera ráð fyrir 7,7% vexti landsframleiðslu á árunum 2011-2013 en ekki 13,8% eins og lagt var upp með á sínum tíma þegar efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og AGS var samin. Á árinu 2013 vantar um 100 milljarða króna upp á að landsframleiðslan komist í eðlilegt horf og því fjölgar störfum ekki og atvinnuleysi minnkar ekki eins og til stóð.

Enginn ágreiningur er um að auknar fjárfestingar í atvinnulífinu, sérstaklega í útflutningsgreinum, verða að draga vagninn í efnahags- og atvinnumálum og er eina raunhæfa leiðin til að tryggja ný og arðbær störf til framtíðar og eyða atvinnuleysi. Lífskjör á Íslandi geta aðeins batnað varanlega með vexti atvinnulífsins. Það er atvinnulífið sem skapar störfin.

Það er sorglegt að fylgjast með því hvað fjárfestingar geta þvælst fyrir ríkisstjórninni. Samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli, sem lofað var í Stöðugleikasáttmálanum í júní 2009, var blásin af þótt ekki væri það stór framkvæmd og ekki hefur náðst samstaða um einkaframkvæmd á nýju fangelsi þrátt fyrir að um 400 manns séu í biðröð eftir því að komast í steininn.

Vaðlaheiðargöng eru eilíft deiluefni þótt líta megi svo á að ríkið komi alltaf til með að stórgræða á framkvæmdinni vegna þess að notendur koma til með að greiða fyrir hana að öllu eða langmestu leyti. Það er verkefni ríkisins að byggja göngin en fjárfestingarkostnaður þess verður í versta falli sáralítill vegna þeirra. Framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng ættu að vera hafnar fyrir löngu. Ríkið ætti að einnig að fjárfesta í Norðfjarðargöngum sem fyrst með niðurgreiðslu frá notendum. Fyrirhugaðar vegaframkvæmdir á Suðvesturlandi á grundvelli notendagreiðslna hafa alfarið verið slegnar af.

Sama gildir um fjárfestingar í atvinnulífinu. Það er eins og ríkisstjórnin sé á móti fjárfestingum í tveimur helstu útflutningsgreinum landsmanna, orkufrekum iðnaði og sjávarútvegi. Ríkisstjórnin hraktist til baka með áform um sérstakt kolefnisgjald á stóriðju sem settu samstundis öll fjárfestingaráform í uppnám í þeirri grein. Rammaáætlun um nýtingu orkuauðlinda hefur ekki verið lögð fram. Áralöng óvissa um stjórn fiskveiða heldur aftur af fjárfestingum í sjávarútvegi.

Getuleysi ríkisstjórnarinnar við að efna mikilvæga þætti yfirlýsingar sinnar í tengslum við kjarasamningana 5. maí sl. er á engan hátt ásættanlegt. Ríkisstjórnin hefur úrslitaáhrif á starfsskilyrði atvinnulífsins og hún hefur ekki nema að mjög litlu leyti viljað vinna með atvinnulífinu til að koma málum í betra horf. Þvert á móti hafa verið lagðar og eru boðaðar þungar nýjar álögur á atvinnulífið og vinnumarkaðinn. Ekki var haft neitt samráð við fyrirtæki og samtök þeirra um umbætur í skattamálum atvinnulífsins eins og fram kemur í yfirlýsingunni.

Meðal nýrra skattahækkana á atvinnulífið og vinnumarkaðinn má nefna fjársýsluskatt og aðra nýja skatta á fjármálafyrirtæki, tvöföldun veiðigjalds í 27% af framlegð útgerðarfyrirtækja, hækkun kolefnisgjalds m.a. á flugsamgöngur innanlands sem jafnframt þurfa að bera kostnað af losunarheimilidum, gistináttagjald sem endaði með klúðri, hækkun auðlegðarskatts, minni skattfrádrátt vegna viðbótarlífeyrissparnaðar og skatt á lífeyrissjóði.

Framganga ríkisstjórnarinnar hefur skapað mikið vantraust í hennar garð hjá Samtökum atvinnulífsins. SA voru tilbúin til að vinna náið með ríkisstjórninni til þess að skapa skilyrði fyrir endurheimt starfa og lífskjara í kjölfar hrunsins 2008 svo sem Stöðugleikasáttmálinn í júní 2009 og kjarasamningarnir 5. maí sl. bera vitni um. Ríkisstjórnin hefur með getuleysi og viljaleysi brugðist því trausti sem Samtök atvinnulífsins hafa sýnt henni.  


Vilhjálmur Egilsson

Tengt efni:

Bréf SA til forsætisráðherra: Staða mála vegna opnunarákvæða kjarasamninga

Fréttabréf SA: Af vettvangi í janúar 2012