Ríki í ríkinu
Heilbrigð samkeppni hvetur fyrirtæki til dáða og stuðlar að lægra verði og betri þjónustu fyrir neytendur. Seinvirkt eftirlit, sem dregur mál svo árum skiptir og tilkynnir eftir dúk og disk að málin hafi verið látin niður falla eða séu enn til rannsóknar, vinnur hins vegar gegn hagræðingu og þróun markaða og leiðir til hærra verðs og færri starfa en ella, dregur úr nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins.
Beiting samkeppnisreglna er matskennd og getur ráðist af ytri aðstæðum. Forsendur sem lagðar eru til grundvallar í samkeppnismálum eru oft ekki ljósar fyrirfram og óvissa getur ríkt um réttindi og skyldur einstakra fyrirtækja. Litlir markaðir bjóða eðli sínu samkvæmt ekki upp á jafn mikla samkeppni og stórir. Strangari reglur hér en í samkeppnislöndunum draga úr getu innlendra fyrirtækja til að standast erlenda samkeppni. Nauðsynlegt er að innlendar aðstæður endurspegli þennan og síbreytilegan raunveruleika og aðilum sé gert kleift að hagræða og sameinast til að mæta alþjóðlegri samkeppni.
Heimildir sem Samkeppniseftirlitið hefur knúið á um að settar verði inn íslenska löggjöf, og ganga lengra en víðast hvar í Evrópu hafa orðið til þess að íslenskt atvinnulíf ber takmarkað traust til Samkeppniseftirlitsins.
Árið 2011 knúði Samkeppniseftirlitið á um að fá heimild til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar Samkeppnismála til dómstóla. Þetta er nánast einsdæmi í íslenskri stjórnsýslu og lýsir vantrausti Samkeppniseftirlitsins á áfrýjunarnefndinni. Það er óviðunandi að fyrirtæki þurfi að verjast málflutningi Samkeppniseftirlitsins fyrir dómi með tilheyrandi kostnaði þrátt fyrir að hafa fengið endanlega og jákvæða niðurstöðu á stjórnsýslustigi. Þessu verður að breyta, með því að afnema heimildina eða leggja niður áfrýjunarnefndina. Eins og nú háttar er möguleiki að einstök mál gengið þessa leið: i) Samkeppniseftirlitið tekur ákvörðun, ii) áfrýjunarnefnd samkeppnismála fellir ákvörðun úr gildi, iii) Samkeppniseftirlitið stefni niðurstöðu Áfrýjunarnefndar fyrir héraðsdóm, iv) sá sem bíður lægri hlut fyrir héraðsdómi áfrýjar þeirri til niðurstöðu Landsréttar og v) sá sem þar tapar málinu áfrýjar til Hæstaréttar. Þetta er augljóslega vont, tímafrekt og dýrt kerfi, engum til hagsbóta og allra síst neytendum.
Árið 2011 fékk Samkeppniseftirlitið einnig heimild til að grípa til aðgerða gegn hvers kyns aðstæðum eða háttsemi þrátt fyrir að ekkert brot hafi átt sér stað á ákvæðum samleppnislaga. Eftirlitið getur gripið inn í lögmætan rekstur fyrirtækis og reynt að knýja á um breytingar á skipulagi eða rekstri. Lagaheimildin felur í sér mikla trú á getu Samkeppniseftirlitsins til að sjá fyrir hvernig einstakir markaðir muni þróast t.d. með tilliti til nýsköpunar, tæknibreytinga og efnahagsþróunar og að þar sé til staðar endanleg þekking á því hvernig rekstri fyrirtækja sé best fyrir komið. Þessi trú byggir á miklum misskilningi og í raun munu aðgerðir sem byggja á þessari lagaheimild leiða til mikils ófarnaðar. Best færi að þessi heimild yrði felld úr lögum sem fyrst.
Samkeppniseftirlitið getur hafið mál gegn fyrirtækjum, tilkynnt um að meint brot séu til rannsóknar, safnað gögnum víða að og jafnvel borið sakir á einstaka stjórnendur eða starfsmenn fyrirtækja. Svo líða árin, hvert af öðru og ekkert heyrist um niðurstöður þar til allt í einu að málin eru felld niður án nokkurra skýringa. Eftir sitja fyrirtækin með sárt ennið og hafa legið undir grun um brot á lögum um langa hríð með tilheyrandi tjóni fyrir alla sem að rekstri þess koma. Það er nauðsynlegt að sett verði ákvæði í lög sem takmarka málsmeðferðartíma stofnunarinnar.
Heimildir sem Samkeppniseftirlitið hefur knúið á um að settar verði inn íslenska löggjöf, og ganga lengra en víðast hvar í Evrópu hafa orðið til þess að íslenskt atvinnulíf ber takmarkað traust til Samkeppniseftirlitsins. Í ljósi ríkra íhlutunarheimilda Samkeppniseftirlitsins er nauðsynlegt að svigrúm sé fyrir málefnalega umræðu um beitingu þeirra en vegna þessara heimilda draga margir við sig að fjalla um samkeppnismál þótt unnt væri að varpa skýrara ljósi á málsmeðferð og aðkomu yfirvalda en nú tíðkast.
Fólk í atvinnulífinu óttast viðbrögð Samkeppniseftirlitsins sem er að verða ríki í ríkinu.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í maí 2018