Réttur fyrirtækja tryggður?
Þegar opinberir aðilar birta ákvarðanir sem íþyngja einstökum fyrirtækjum gildir að það er unnt að kæra ákvarðanir einstakra stofnana til æðra setts stjórnvalds. Þar er þess freistað að fá ákvörðuninni hnekkt eða henni breytt. Það er svo fyrirtækisins að ákveða hvort það sættir sig við úrskurð sem þannig fæst eða hvort málinu er vísað áfram til dómstóla.
Samkvæmt samkeppnislögum úrskurðar sérstök áfrýjunarnefnd um ágreiningsmál og er óheimilt að bera mál undir dómstóla nema að fengnum úrskurði nefndarinnar. Samkeppniseftirlitinu var með lagabreytingu 2011 heimilað að kæra til dómstóla úrskurði sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála kveður upp. Því standa fyrirtækin frammi fyrir nýrri óvissu ef áfrýjunarnefndin hefur hnekkt eða mildað ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Það mun ekki koma í ljós fyrr en að liðnum allt að sex mánuðum hvort Samkeppniseftirlitið sættir sig við úrskurð áfrýjunarnefndarinnar eða hvort það stefnir fyrirtækinu og áfrýjunarnefndinni fyrir héraðsdóm.
Möguleikar fyrirtækjanna til að fá endanlegan úrskurð mála á stjórnsýslustigi hafa verið afnumdir og réttur þeirra skertur. Kæra til áfrýjunarnefndarinnar hefur í raun enga þýðingu nema til að tefja mál.
Þegar lagabreytingin var kynnt fyrir Alþingi var látið að því liggja að Póst- og fjarskiptastofnun hefði svipaða heimild. En í lögum, sem um þá stofnun gildir, er tekið fram að samþykki ráðherra þurfi til að höfða mál gegn úrskurðarnefndinni og að málshöfðunarheimildin gildi aðeins í undantekningartilvikum.
Í ýmsum öðrum tilvikum er unnt að kæra ákvörðun eftirlitsstjórnvalds til ráðherra viðkomandi málaflokks sem úrskurðar um ágreiningsefnið. Sú stofnun sem tók hina kærðu ákvörðun hefur yfirleitt ekki heimild til að kæra úrskurð til dómstóla. Stjórnsýsla sem heimilar stofnunum að fara í mál við ráðherra sinn er býsna einkennileg. Á sama hátt er einkennilegt að Samkeppniseftirlitið geti farið í mál við stofnun, áfrýjunarnefnd, sem er henni æðra sett.
Samkeppniseftirlitið getur einnig tekið upp að nýju samrunamál ef ákvarðanir hennar hafa verið felldar úr gildi af áfrýjunarnefndinni eða dómstólum vegna formgalla. Það á að vera réttur fyrirtækja að farið sé að öllum formkröfum samkeppnislaga og stjórnsýslulaga. Reglan hlýtur að vera sú að stjórnvald beri ábyrgð á eigin niðurstöðum í stað þess að taka mál upp aftur ef eitthvað fer úrskeiðis. Það kallar bara fram óvönduð vinnubrögð.
Samtök atvinnulífsins hafa nýlega kynnt tillögur sínar um breytingar á samkeppnislögunum og leggja til að báðum þessum lagaákvæðum verði breytt. Þannig verði tryggður réttur fyrirtækjanna til að fá lokið málum á stjórnsýslustigi og að farið verði að formkröfum við málsmeðferð samrunamála.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 11. október 2012