Raunhæft fyrir Ísland að komast í fremstu röð
Stephane Garelli, framkvæmdastjóri IMD rannsóknarstofnunarinnar í Sviss, segir það raunhæft markmið fyrir Ísland að komast í fremstu röð á næstu árum. Á Íslandi sé fullt af hæfileikaríku fólki sem geti tryggt það. IMD sérhæfir sig í rannsóknum á samkeppnishæfni þjóða en Samtök atvinnulífsins hafa sett fram metnaðarfulla stefnu: Að Ísland verði meðal 10 samkeppnishæfustu þjóða heims innan 10 ára.
Í tilefni nýrrar stefnumörkunar SA var rætt við Garelli yfir netið á Skype þar sem hann var staddur í höfuðstöðum IMD. Nálgast má viðtalið hér að neðan ásamt helstu atriðum sem einkenna samkeppnishæfar þjóðir að mati Garelli.
Ársfundur atvinnulífsins 2014: Stephane Garelli, framkvæmdastjóri IMD í Sviss. from Samtök atvinnulífsins on Vimeo.
Takist Íslendingum að verða meðal 10 samkeppnishæfustu þjóða heimsins verður atvinnulífið fjölbreyttara og það mun skila meiri arðsemi. Verðmætasköpun þjóðarinnar mun jafnframt aukast sem er forsenda fyrir betri lífskjörum Íslendinga.
IMD hefur sérhæft sig í rannsóknum á samkeppnishæfni síðastliðinn 25 ár og það eru nokkrir þættir sem einkenna samkeppnishæfustu ríkin að sögn Garelli. Tækni, menntun, innviðir, efnahagsstjórn og fjárfestingarumhverfi skipta höfuðmáli en einnig menning og gildismat þjóða. Stefna um samkeppnishæfni er t.d. mismunandi milli landa vegna þess að gildismat þeirra er ólíkt.
„Sigurvegararnir í samkeppnishæfni eru í fyrsta lagi útflutningsþjóðir sem búa við viðskiptaafgang, annað hvort vegna útflutnings vöru eða þjónustu. Mikilvægast er að þjóðir séu opnar fyrir alþjóðaviðskiptum og útflutningur sé mikill. Ísland býr á ný við viðskiptaafgang, 2,6% af landsframleiðslu, og það er gott, lykilatriði fyrir framtíðina. Í öðru lagi verður að ríkja fjölbreytni í efnahagslífinu," segir Garelli.
Hann bætir við að eigin iðnaður þjóða skipti miklu máli, að framleiða hluti sem eftirspurn er eftir eins og t.d. Þjóðverjar. Þá verði að hlúa að meðalstórum fyrirtækjum.
„Þegar litið er á heiminn allan þá kemur í ljós að öll ríki eru með stór, samkeppnishæf fyrirtæki á toppnum, jafnvel Mongólía. En það sem skiptir máli er næsta lag fyrir neðan, meðalstóru fyrirtækin, sem flytja út og eru háþróuð tæknilega. Þau eru t.d. leyndardómur samkeppnishæfni Svíþjóðar og Þýskalands." Garelli segist telja að hlutirnir séu ekkert öðruvísi á Íslandi en ábyrg stjórn opinberra fjármála skipti líka miklu máli og að menntakerfið og atvinnulífið vinni vel saman.
„Það er gott og blessað að útskrifa fólk úr háskólum. Ég sem prófessor í háskóla get ekki sagt annað. En við þurfum einnig fólk sem lærir að vinna störf en ekki bara vísindi. Iðn- og starfsnámskerfið er algerlega lífsnauðsynlegt, ekki bara fyrir samkeppnishæfnina heldur einnig til að ná niður atvinnuleysi ungs fólks. Um allan heim eru ríki sem njóta velgengni, en búa samt við mikið atvinnuleysi ungmenna. Í Finnlandi er atvinnuleysi 19% meðal ungs fólks og Finnar eru með besta menntakerfið í heiminum! Þannig að í raun leggja þeir of mikla áherslu á háskólamenntun og of litla áherslu á að kenna fólki að vinna."
Til að vera meðal samkeppnishæfustu þjóða heimsins þurfa allir fyrrgreindir þættir að vera til staðar en það þarf meira til.
„Lokaatriðið er það sem ég vil kalla þjóðarsátt. Þegar öllu er á botninn hvolft þarf friður að ríkja innanlands til að markmið um vaxandi velmegun þjóðar náist. Þjóð eins og Frakkar til dæmis, sem er mjög snjöll á mörgum sviðum, líður vegna innri átaka þar sem fólk kemur sér ekki saman um hvert skuli stefnt. Þeir tapa miklu vegna þeirrar neikvæðrar orku sem fer í ágreiningsmál og það bitnar á velgengni í framtíðinni. Í mínu landi, Sviss, förum við rólega að, erum framúrskarandi á mörgum sviðum, tökum eitt skref í einu, en þegar við höfum stigið skref fram veginn eru allir sammála um leiðina. Ég tel að þetta sé mikilvægt, að skapa þessa félagslega og þjóðlegu samstöðu um stefnuna í samkeppnismálum. Í stuttu máli er þetta uppskriftin."
Ísland er nú í 29. sæti yfir samkeppnishæfustu þjóðir heims skv. IMD en á sjö árum féll Ísland niður listann um 25. sæti. Náin tengsl eru á milli samkeppnishæfni og lífskjara en Garelli óskar Íslendingum góðs gengis.
„Ísland hefur áður verið mjög samkeppnishæft og engin ástæða er til annars en að landið verði mjög samkeppnishæft í framtíðinni." Hann undirstrikar þó að lokum að atvinnulífið verði að búa við fyrirsjáanleika til að ná árangri og að ekki sé sífellt verið að skipta um stefnu. „Ég tel að fyrirsjáanleiki opinberrar stefnumörkunar sé lykilatriði samkeppnishæfni í framtíðinni."