Rafræn gátt einfaldar leyfisveitingar framkvæmda og mat á umhverfisáhrifum

Rafræn gátt myndi einfalda leyfisveitingar framkvæmda og mat á umhverfisáhrifum til að spara tíma, tryggja betra aðgengi gagna og almennings og auka skilvirkni og aðhald í vinnubrögðum. Þetta er niðurstaða skýrslu sem VSÓ ráðgjöf vann fyrir Samorku, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins um ávinning rafrænnar þjónustu í leyfisveitingaferli.

Í skýrslunni kemur fram að leyfisveitingaferli sé í dag flókið ferli sem sé bæði tímafrekt og óskilvirkt. Sömu gögn eru ítrekað lögð fram og dæmi eru um að framkvæmd fari 17 sinnum í umsagnarferli og að hver stofnun fjalli 10 sinnum um málið. Niðurstaða skýrslunnar er sú að hér á landi sé mat á umhverfisáhrifum óþarflega flókið miðað við löggjöf í nágrannalöndum. Með rafrænni gátt og breyttu verklagi væri hægt að einfalda matið verulega, án þess að skerða aðgengi almennings og hagsmunaaðila eða ganga gegn Evróputilskipunum.

Það er mat Samorku, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins að tækifæri til einföldunar séu til staðar, tæknin sem þarf er að ryðja sér til rúms og yfirlýstur vilji stjórnvalda er að koma á slíkum umbreytingum. Ávinningurinn er augljós og því hvetja samtökin stjórnvöld til að stuðla að slíkum umbreytingum í takt við breytta tíma og bætta tækni.

Meðfylgjandi er skýrsla VSÓ Ráðgjafar Málsmeðferð við leyfisveitingar og mat á umhverfisáhrifum, sem unnin var fyrir Samorku, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins.

Hér fer Bryndís Skúladóttir, hjá VSÓ Ráðgjöf, yfir niðurstöður skýrslunnar: