Rætt um flug og siglingar á loftslagsráðstefnunni
Loftslagsráðstefnan í Kaupmannahöfn er nú kominn á fulla ferð. Á mánudag og þriðjudag tóku til starfa allir undirhópar loftslagssamnings S.Þ. og einnig Kyoto-bókunarinnar. Í upphafsræðum héldu fulltrúar flestra ríkja sig við fyrri afstöðu og ágreiningsmál eru vissulega til staðar. Hins vegar hefur á síðustu mánuðum orðið ákveðin þróun í yfirlýsingum ráðamanna sem gefur til kynna að mögulega megi ná heildarsamkomulagi.
Stór og öflug iðnríki eins Bandaríkin og Japan ásamt ESB hafa lofað verulegu fé til stuðnings þróunarríkjunum. Bandaríkin vilja leggja sanngjarnan hlut í sjóð sem fær allt að 10 milljarða dali árlega. Þessi upphæð er um 30 sinnum hærri en þau framlög sem hingað til hafa runnið til þessara mála.
Þróunarríki eins og Kína, Indland, Singapúr og fleiri hafa gefið til kynna að þau geti verið reiðubúin að leggja hömlur á aukningu útstreymis. Brasilía og Indónesía segjast búin til að semja um takmörkun skógeyðingar og verulegar úrbætur til lengri tíma.
Auk þessa er almennur skilningur á að ná samkomulagi um stuðning við fátæk ríki til aðlögunar að lofslagbreytingum og að styðja við tækniþróun og uppbyggingu innviða í þessum ríkjum.
Átakapunkturinn verður um fjármagn annars vegar og skuldbindingar iðnríkja um samdrátt útstreymis hins vegar. Einnig verður tekist á um framhald Kyoto-bókunarinnar. Rússar hafa nú sagt alveg skýrt að þeir vilji eitt heildarsamkomulag og með því hafa þeir tekið undir tillögur ESB og fleiri í þeim efnum.
Kröfur þróunarríkja eru nánast takmarkalausar bæði hvað varðar fjárframlög og um samdrátt útstreymis í iðnríkjum. Víst er að þau munu ganga eins langt og þeim frekast er unnt en þau munu jafnframt reka sig á vegg þar sem iðnríkin telja sig ekki geta gengið lengra. Vel getur farið svo að upp úr viðræðunum slitni á einhverjum tíma en þó eru líkur til að samkomulag náist á endanum.
Flug og siglingar
Reglulega er fjallað um útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna siglinga og flugsamgangna á fundum loftslagsráðstefnunnar. Ákveðið var þegar Kyoto-bókunin var samþykkt að um þessi atriði yrði fjallað á vegum Alþjóða siglingamálastofnunarinnar (IMO) og Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO). Þar hefur í mörg ár verið unnið að viðmiðum um tæknilegar úrbætur á þessum sviðum. Náðst hefur verulegur árangur á undanförnum áratugum hvort sem miðað er við útstreymi skipa (tonn CO2/tonnkm) skipa eða flugvéla (tonnCO2/farþegakm). Báðar þessar stofnanir sem starfa undir hatti Sameinuðu þjóðanna hafa metnaðarfullar áætlanir um að bæta enn frekar þennan árangur.
Mörg ríki með Noreg og ESB í broddi fylkingar telja þó ekki nóg að gert og hafa lagt til að sett verði heildarþak á útstreymi frá þessum geirum á vegum loftslagsráðstefnunnar. Eins eru uppi tillögur um að leggja sérstakt alþjóðlegt gjald á þessa flutninga sem varið verði til góðra málefna í þróunarríkjum. Frekar ólíklegt er að af þessu verði þó svo kunni að fara að því verði beint til IMO og ICAO að hraða vinnu á þessu sviði og stefnt verði að ákveðnum markmiðum.
Flug og ESB
Frá árinu 2012 mun flug á Íslandi falla undir viðskiptakerfi ESB með útstreymisheimildir. Það nær til allra flugsamgangna til og frá landinu. Flugfélög munu þá þurfa útstreymisheimildir hvort sem flogið er til og frá Bandaríkjunum eða ESB og EFTA-ríkjunum. 85% heimildanna verður úthlutað án endurgjalds upp að ákveðnu árangursviðmiði. Þær heimildir sem flugfélögin þurfa umfram veða þau að kaupa á markaði.
Áður en þetta var ákveðið vöktu íslensk stjórnvöld athygli stjórnmálamanna og embættismanna í ESB og aðildarríkjum á þeirri sérstöðu sem Ísland býr við í þessu sambandi. Ekki höfðu þau árangur sem erfiði þar sem ekkert tillit er tekið til eyríkja.
Tilskipun ESB sem kveður á um að flugsamgöngur falli undir viðskiptakerfi ESB með útstreymisheimildir mun væntanlega koma hlutfallslega verr niður á samgöngum á Íslandi en í örðum Evrópuríkjum. Vonast var til þess að íslensk stjórnvöld myndu við innleiðingu tilskipunarinnar í EES-samninginn fara fram á undanþágu fyrir innanlandflugið. Nýlega ákvað ríkisstjórnin hins vegar að það skyldi ekki gert og kemur því innanlandsflugið til með að falla undir kerfið frá 2012. Innanlandsflugið þarf því að reikna með að verða fyrir tugmilljóna króna kostnaði vegna þessa. Umhverfislegur ávinningur af ákvörðun stjórnvalda er ekki ljós - ef hann er þá einhver.
Pétur Reimarsson.