Ræktun eða rányrkja?
Samtök atvinnulífsins kynna á morgun nýtt rit um skattamál atvinnulífsins undir heitinu "Ræktun eða rányrkja?" Þar er fjallað um skattahækkanir á atvinnulífið síðustu fjögur ár sem eru afar víðtækar og ýmsar vanhugsaðar. Þær hindra uppbyggingu skattstofnanna og leiða því til tekjutaps ríkissjóðs.
Alls hafa árlegir skattar ríkissjóðs hækkað um 87 milljarða króna frá árinu 2008 til þess sem vænst er á árinu 2013. Er þá miðað við verðlag á árinu 2013. Hækkun á atvinnutryggingagjaldi vegur lang þyngst og er rúmlega fjórðungur af hækkuninni. Hækkun veiðigjalds á útgerð nemur tæpum 13% af auknum skatttekjum ríkissjóðs.
Við gerð stöðugleikasáttmálans í júní 2009 var um það samið að skattahækkanir þyrftu að nema 45% af aðhaldsaðgerðum ríkissjóðs en 55% ættu að nást með lækkun útgjalda. En þegar að er gáð í fjárlagafrumvarpinu 2013 hafa skattar hækkað um 20 milljarða króna umfram það sem um var samið og útgjöld lækkað minna sem því nemur. Þessum 20 milljörðum er ætlað að fjármagna samsvarandi útgjaldahækkanir á kosningaári.
Atvinnulífið tók á sig mikla hækkun tryggingagjalds frá og með árinu 2009 til þess að greiða kostnað af auknu atvinnuleysi. Atvinnutryggingagjald, sem er hluti tryggingagjalds, hækkaði um 3,16 prósentustig og tryggingagjald alls hækkaði í 8,35%. Samtök atvinnulífsins gengu fram fyrir skjöldu til þess að stuðla að lausn þess brýna vanda sem upp var kominn vegna mikils atvinnuleysis. Margrætt var við ríkisstjórnina að tryggingagjaldið skyldi síðan lækka í takt við minna atvinnuleysi og samsvarandi kostnað Atvinnuleysistryggingasjóðs.
Við gerð kjarasamninga í maí 2011 var enn og aftur fjallað um tryggingagjaldið og endurnýjuð sú stefnumörkun að lækka tryggingagjaldið í takt við minna atvinnuleysi. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2013 gengur ríkisstjórnin á bak orða sinna. Gert er ráð fyrir því að almenni hluta tryggingagjaldsins hækki á móti lækkun á atvinnutryggingagjaldinu og að tryggingagjald í heild verði óbreytt. Tryggingagjaldið ætti að lækka um a.m.k. 0,75% til þess að vera í takt við minnkandi kostnað við atvinnuleysið.
Ríkisstjórnin hefur víða leitað fanga í atvinnulífinu með skattahækkanir. Skiptir þá engu máli hvort samkomulag hefur verið við viðkomandi atvinnugrein um skattamál eða ekki. Samkomulag um skattlagningu á orku er ekki virt þrátt fyrir að það hafi verið forsenda lykilákvarðana um fjárfestingar stóriðjufyrirtækja. Í fyrravetur hófst sameiginleg vinna með samtökum í verslun og iðnaði til þess að endurskoða fyrirkomulag vörugjalda með markmið að breytingar skili óbreyttum tekjum. Þegar vinnan er nokkuð komin á leið tilkynnir ríkisstjórnin að breytingarnar eigi að skila 800 milljón króna tekjuauka.
Á sínum tíma voru gerðar sérstakar skattalegar ráðstafanir til þess að auka samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar með því að gera verð á gistingu og bílaleigubílum viðráðanlegri fyrir ferðamenn. Einmitt þegar aðgerðirnar eru teknar að skila verulegum árangri hyggst ríkisstjórnin draga þær til baka og veldur með því mikill röskun vegna skamms fyrirvara og óvissu um afleiðingarnar.
Fjármálaþjónusta fær sinn skerf af skattahækkunum með sérstökum fjársýsluskatti. Þetta er einn skattur af fjölmörgum sem lagðir hafa verið á fjármálafyrirtækin á undanförnum árum. Árleg ótekjutengd gjöld á greinina hafa hækkað um meira en 9,5 milljarða króna frá árinu 2007. Kostnaður í fjármálakerfinu eykst um samsvarandi upphæð og er greidd af viðskiptavinum fyrirtækjanna þegar upp er staðið. Finnst þó flestum nóg um háan fjármagnskostnað hér á landi.
Framganga ríkisstjórnarinnar við álagningu veiðigjalda slær mörg met í fúski í skattheimtu og er ótrúlega skaðleg. Ríkisstjórnin hefur staðfastlega neitað að hlusta á skynsemisrök í málinu. Veiðigjöld eru nú lögð á útgerðina með sambærilegum rökstuðningi og hátekjuskattur væri lagður á láglaunafólk. Góð afkoma hluta fyrirtækjanna verður grundvöllur að ákvörðun um sérstakt veiðigjald sem allir þurfa að borga, bæði þeir sem betur eru settir og eins þeir sem lakast standa. Á sama hátt og láglaunafólk getur ekki borið hátekjuskatt hlýtur hátt veiðigjald, sem byggir á góðri afkomu hluta sjávarútvegsins, að kippa grundvellinum undan rekstri þeirra útgerðarfyrirtækja sem veikast standa.
Í nýlegri könnun meðal félaga í Samtökum atvinnulífsins kom fram að skattamálin eru eitt helsta áhyggjuefni fyrirtækjanna. Skattkerfið var ekki fullkomið áður en núverandi ríkisstjórn tók við völdum og öllum ljóst að hækka þyrfti skatta eftir bankahrunið 2008. Ríkisstjórnin hefur hins vegar gengið gegn meginsjónarmiðum um að rækta þurfi skattstofnana til þess að tryggja að þeir skili ásættanlegum tekjum til framtíðar. Ríkisstjórnin stundar í síauknum mæli rányrkju í skattamálum og vegur að skattstofnunum í stað þess að byggja þá upp.
Vilhjálmur Egilsson