Ráðleysi eða röggsemi

Ráðleysi lýsir best ástandinu sem skapast hefur með gjaldeyrishöftunum sem hafa verið við lýði frá nóvember 2008. Síðasta útspilið í málinu var frá foringjum stjórnmálaflokkanna sem komust að þeirri einstöku niðurstöðu að besta leiðin til að losna við gjaldeyrishöftin sé að viðhalda þeim. Núgildandi lög ganga út frá því að höftin verði afnumin fyrir árslok en stjórnmálaforingjarnir vilja nú hafa höftin ótímabundin.

Í hugum flestra felst afnám haftanna í því að afnema lögin um þau en ekki framlengja gildistíma þeirra. En afnám haftanna virðist vaxa stjórnmálastéttinni og Seðlabankanum svo í augum að ekki er tekið á málinu. Við setningu haftanna voru þau boð látin út ganga að þau yrðu horfin eftir þrjá mánuði. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn notaði hugtakið "eitthvað lengur" (e. somewhat longer) til þess að gefa til kynna að höftin yrðu ekki viðvarandi. Engin skýring hefur fengist á því af hverju þessum blekkingum var beitt og hver beri ábyrgð á þeim. Var þó stíft varað við því að gjaldeyrishöftin væru komin til að vera um fyrirsjáanlega framtíð væru þau innleidd á annað borð. Engin afnámsáætlun var lögð fram þegar höftin voru lögleidd.

Gjaldeyrishöftin eru sem krabbamein í efnahagslífi Íslendinga. Þau eru bein yfirlýsing og viðurkenning íslenskra stjórnvalda á því að íslenska krónan sé óáreiðanlegur gjaldmiðill sem beri að varast. Atvinnulífið og fjárfestar hljóta að taka mark á þessu og afleiðingin er eilífur gjaldeyrisskortur og þrýstingur á gengi krónunnar. Gera má ráð fyrir að gengi krónunnar í höftum fari stöðugt lækkandi, með árstíðabundnum sveiflum, en það veit ekki á gott fyrir verðbólguna. Við bætist að það mikla fé í eigu útlendinga sem haldið er föstu hér í landinu er á beit á íslenskum vöxtum og því stækkar sífellt vaxtareikningurinn sem erlendir aðilar senda þjóðinni.

Því hefur verið haldið fram að íslenska þjóðin rísi ekki undir þeirri skuldabyrði sem á henni hvílir vegna eigna erlendra aðila í íslenskum krónum. Því þurfi höftin. En vandamálið heldur bara áfram að vaxa með áframhaldandi höftum. Þannig er verið að hlaða mikla sprengju sem á endanum springur í andlitið á þjóðinni. Því þarf að afnema höftin hið allra fyrsta. Samtök atvinnulífsins lögðu sl. vor fram hugmyndir um afnám haftanna sem gengu í aðalatriðum út á að sprengjan yrði aftengd með því að eigendur krafna í krónum gæfu afslátt af þeim gegn því að þeim yrði breytt í kröfur til langs tíma í erlendum gjaldmiðlum. Þessi leið kallar á mikla ákveðni og frumkvæði af hálfu stjórnvalda. Ekki hefur reynst vilji til að fara hana.

Önnur fær leið er að eignir erlendra aðila í íslenskum krónum lækki með því að gengi krónunnar lækki tímabundið umtalsvert og að tækifærið sem í því felst verði nýtt skynsamlega. Þá væru höftin afnumin og allt gert til þess að tryggja að fjárflóttinn úr landinu gerðist á sem allra stystum tíma, s.s. tveimur til þremur vikum.  M.a. gæti útgönguskattur tekið gildi að tveim vikum liðnum. Ef rétt er að slíku staðið og undirbúningur nægur gætu aðilar sem þurfa t.d. að kaupa gjaldeyri vegna viðskipta með vöru og þjónustu sveigt greiðslur framhjá þessu stutta tímabili og því myndi þessi tímabundna gengislækkun ekki valda aukinni verðbólgu.

Rísi þjóðin ekki undir þeim skuldum við erlenda aðila í íslenskum krónum sem réttlæta gjaldeyrishöftin þarf að ná fram lækkun þeirra, annað hvort með beinum afslætti af kröfunum með samningum eða verðfellingu í gegnum gengislækkun. Framhald gjaldeyrishafta frestar vandanum, stækkar hann og leiðir á endanum til ófyrirsjáanlegra hremminga.

Öll skilaboð um að ekki eigi að afnema gjaldeyrishöftin innan tilsetts tíma veikja tiltrú á Íslandi, bæði innan lands og utan, og vinna gegn því að hægt sé að byggja upp kröftugt og nútímalegt atvinnulíf hér á landi.

Vilhjálmur Egilsson

Af vettvangi í janúar 2013