Ráðgjöf um smitvarnir á vinnustöðum

Samtök atvinnulífsins hafa gert samning við Guðmund Frey Jóhannsson lækni um að hann veiti aðildarfyrirtækjum SA ráðgjöf, í tengslum við smitvarnir á vinnustöðum, sem SA greiða fyrir.

Um er að ræða viðbragð SA við því sem fram kom á upplýsingafundi almannavarna á sunnudag, um að nokkuð væri um að heilsugæslunni bærust fyrirspurnir frá fyrirtækjum um hvernig mætti haga starfsemi til þess að koma í veg fyrir smit. Þetta er gert með það fyrir augum að létta álagi af heilsugæslunni og aðstoða fyrirtæki við smitvarnir.

Ráðgjöfin kemur til með að standa yfir á meðan sóttvarnaráðstafanir yfirvalda eru í gildi. Haldinn verður fjarfundur á þriðjudaginn 14. apríl klukkan 13 með aðildarfyrirtækjum þar sem Guðmundur veitir almennar ráðleggingar um smitvarnir á vinnustöðum og tekur svo við spurningum. Þá mun aðildarfyrirtækjum bjóðast að senda fyrirspurn á Guðmund eða óska eftir símtali frá honum með því að senda tölvupóst á sa@sa.is.

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri og Sólveig B. Gunnarsdóttir, lögfræðingur á vinnumarkaðssviði, munu einnig sitja fundinn og eru til svars um álitamál sem hafa risið á vinnustöðum vegna Covid 19.