Ótraustur grunnur tekjuspár fjárlaga
Alþingi hefur afgreitt fjárlög ríkisins fyrir árið 2012. Halli ríkissjóðs eykst um 3 milljarða króna frá fjárlagafrumvarpi og er áætlaður 21 milljarður. Rökstuddar ábendingar hafa komið fram um vantalin gjöld og ofáætlaðar tekjur þannig að hallinn á árinu 2012 gæti orðið meiri þegar upp er staðið. Fjárlögin einkennast af þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að leggja á nýja skatta og hækka álögur á fyrirtæki og heimili í stað þess að stuðla að stækkun skattstofna sem skapa myndu auknar tekjur fyrir ríkissjóð.
Þrátt fyrir spá um minni hagvöxt á næsta ári en fjárlagafrumvapið byggðist á er nú gert ráð fyrir meiri tekjum ríkissjóðs. Fjárlögin gera ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja skili ríkissjóði rúmlega fimm milljörðum króna meiri tekjum en í fjárlagafrumvarpinu og að tekjur af tryggingagjaldi og veltusköttum verði tveimur og hálfum milljarði hærri.
Horfurnar í efnahagsmálum eru ekki sérlega bjartar; lítill og ótraustur hagvöxtur, doði í fjárfestingum, mikið atvinnuleysi og síðast en ekki síst eru horfur í heimsbúskapnum viðsjárverðar. Nú spáir Efnahags- og þróunarstofnunin (OECD) engum hagvexti á næsta ári í evru-ríkjunum, 0,5% í Bretlandi, 0,7% í Danmörku, en þetta eru helstu viðskiptalönd Íslands, og 1,6% í OECD-ríkjunum í heild.
Engu að síður gerir þjóðhagsspá Hagstofunnar ráð fyrir 2,4% hagvexti á næsta ári sem einkum verði knúinn áfram af einkaneyslu sem talin er aukast um 3%. Aðrir spáaðilar fara varlegar í sakirnar og spá minni hagvexti en Hagstofan. Á þessu ári hefur einkaneysla, sem er langstærsti liður þjóðarútgjaldanna, aukist mjög mikið eða um 4,4% fyrstu níu mánuði ársins. Aukin einkaneysla í ár er borin uppi af þremur þáttum; óvenju mikilli aukningu kaupmáttar launa, háum eingreiðslum í tengslum við kjarasamninga , greiðslu sérstakra vaxtabóta og metúttekt á viðbótarlífeyrissparnaði. Auk þess stuðluðu endurgreiðslur vaxta hjá Landsbankanum að auknum kaupmætti heimilanna. Allt eru þetta þættir sem hafa aukið kaupgetu heimilanna tímabundið og þar með einkaneyslu á árinu.
Á næsta ári eiga heimilin ekki von á viðlíka búhnykk og á þessu ári auk þess sem skattbyrði tekjuskatts eykst (vegna þess að skattþrepin hækka minna en laun) og úttekt á viðbótarlífeyrissparnaði er áætluð verða helmingi minni en í ár. Á móti kemur þó að takmörkun frádráttarbærni framlaga launamanna til séreignarsparnaðar mun draga úr sparnaði og auka eyðslu. Að öllu þessu samanlögðu standa rök til þess að einkaneysla aukist mun minna á næsta ári en á þessu.
Fjárfesting er talin aukast um rúm 16% á næsta ári sem er tvöfalt meiri aukning en gert er ráð fyrir á þessu ári. Sú spá byggir m.a. á því að framkvæmdir við kísilverksmiðju í Helguvík hefjist á næsta ári sem enn er óvissa um. Vegna lágs fjárfestingarstigs undanfarin ár hefur safnast upp mikil fjárfestingarþörf í atvinnulífinu. Auknar skattaálögur á fyrirtæki, dráttur á framkvæmd skuldaaðlögunar fyrirtækja og áframhaldandi óvissa í sjávarútvegi mun áfram seinka því að almenn fjárfesting fyrirtækja taki við sér. Þá heldur fjárfesting hins opinbera áfram að dragast saman. Aukin fjárfesting er því ekki líkleg til að leggja hagvexti mikið lið við óbreyttar aðstæður.
Af framansögðu verður vart annað ráðið en að tekjuspá fjárlaga 2012, og þar með afkomuhorfur ríkissjóðs, sé afar brothætt og byggi á tilefnislausri bjartsýni um efnahagsframvinduna.