Ótímabær hækkun stýrivaxta

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tók þá ákvörðun í morgun að hækka vexti bankans um 0,25% og færa meginvexti bankans með því í 4,5%. Eru stýrivextir nú hækkaðir í fyrsta skipti í þrjú ár en þeir voru síðast hækkaðir 4. nóvember 2015.  

Þrátt fyrir að á fyrri helmingi þessa árs hafi mælst heldur meiri hagvöxtur en spá Seðlabankans gerði ráð fyrir þá hefur þróunin verið allt önnur á síðari helmingi ársins og lítil spenna sjáanleg í þjóðarbúinu um þessar mundir. Væntingar stjórnenda fyrirtækja og heimila til efnahagshorfa hafa ekki mælst minni frá á árinu 2010 og  nánast daglega berast fréttir þess efnis að fyrirtæki bregðist við erfiðu rekstrarumhverfi með því að hagræða í rekstri. Gengisveikingu krónunnar síðustu mánuði má meðal annars rekja til þeirra óvissu sem nú er uppi í efnahagslífinu. Það eru blikur á lofti og að mati Samtaka atvinnulífsins er vaxtahækkunin í morgun ekki tímabær og einungis til þess fallin að hraða kólnun hagkerfisins sem nú þegar er hafin af fullum þunga.

Engin sviðsmynd þrátt fyrir mikla óvissu á vinnumarkaði
Ein helsta forsenda vaxtahækkunarinnar er að sögn nefndarinnar hækkun verðbólguvæntinga að undanförnu en ljóst er að sú hækkun stafar af miklu leyti af óvissu um niðurstöðu kjarasamninga. Í ljósi þessa eru því veruleg vonbrigði að Seðlabankinn skuli ekki birta sviðsmyndagreiningu á því hvaða áhrif möguleg launaþróun geti haft á verðbólgu og vaxtastig í landinu líkt og bankinn gerði í aðdraganda síðustu kjarasamninga árið 2015. Slík greining væri til þess fallin að dýpka umræðuna um kjaramál sem framundan eru á vinnumarkaði.

Þá vekur einnig athygli að peningastefnunefnd kjósi að hækka vexti nú aðeins örfáum dögum eftir að ákvörðun var tekin um að slaka á innflæðishöftunum, en á föstudaginn síðasta var tilkynnt um lækkun á sérstakri bindiskyldu á fjármagnsinnstreymi úr 40% í 20%. Að mati SA hefði verið eðlilegra að staldra við til að sjá hver áhrifin verða á gengisþróun og verðbólguvæntingar því stíf innflæðishöft hafa einnig haft áhrif til gengisveikingar krónunnar síðustu misserin. Það má því færa rök fyrir því að Seðlabankinn hafi sjálfur ýtt undir gengisveikingu krónunnar undanfarna mánuði með því að hefta frjálst flæði fjármagns inn í hagkerfi sem á sama tíma þurfti nauðsynlega á fjármagni að halda.  

Fórnarkostnaðurinn getur orðið lægra atvinnustig
Greina má harðan tón í yfirlýsingu peningastefnunefndar. Niðurlagi yfirlýsingarinnar er beint til aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda þar sem þeim er sagt nokkuð berum orðum að framhaldið sé í þeirra höndum. Seðlabankinn sé tilbúinn að hækka vexti enn frekar og ákvarðanir á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum muni öðru fremur stýra því hversu hátt þeir þurfa að fara með tilheyrandi samdrætti og atvinnuleysi.

„Peningastefnunefnd ítrekar að hún hefur bæði vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu við markmið til lengri tíma litið. Haldi verðbólguvæntingar áfram að hækka og festist í sessi umfram markmið mun það kalla á harðara taumhald peningastefnunnar. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, hafa þá áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verður í lægra atvinnustigi.“

Niðurlag yfirlýsingar peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, 7. nóvember 2018.