Óþægindi vegna starfsdaga í skólum
Í umfjöllun Morgunblaðsins um starfsdaga í skólum segir Gústaf Adolf Skúlason, forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins, fjölda erinda berast SA frá fyrirtækjum þar sem lýst er óþægindum vegna starfsdaga. "Við drögum mikilvægi undirbúnings skólastarfs ekki í efa en við spyrjum hvort ekki sé hægt að skipuleggja þetta með skilvirkari hætti fyrir börnin, foreldra, vinnustaði þeirra og þar með þjóðfélagið í heild," segir Gústaf.
Nauðsynlegt að auka samræmi milli leikskóla og
grunnskóla
Gústaf segir að það fylgi breyttu þjóðfélagi þar sem báðir
foreldrar eru yfirleitt á vinnumarkaði, að skólarnir og
leikskólarnir séu í þjónustuhlutverki ásamt því hlutverki að mennta
börnin. Gústaf segir SA ekki hafa svör á reiðum höndum við þeirri
spurningu hvernig sé hægt að skipuleggja starfsdaga með skilvirkari
hætti. Hann segir þó nauðsynlegt að auka samræmi á milli
leikskólanna og grunnskólanna. Aðrar hugmyndir SA eru á þann hátt
að skipta t.d. kennurum í hópa sem hafa sérstaka starfsdaga og
leysa hver annan af við að sinna nemendum sem yrðu þá ekki í
hefðbundnu skólastarfi. Slíka starfsdaga mætti þá tengja t.d.
skólaferðalögum eða fræðslu eða skemmtun fyrir nemendur frá
utanaðkomandi aðilum. Gústaf Adolf nefnir starfsdaga á laugardögum
sem aðra mögulega lausn.
SA tilbúin til samstarfs
Varðandi gagnrýni sem komið hefur fram þess efnis vinnumarkaðurinn
komi ekki til móts við vetrarfrí í grunnskólum segir Gústaf það
koma til greina af hálfu SA að skoða hvort ráð væri að hér þróaðist
hefð fyrir tilteknum vetrarfrídögum með almennri orlofstöku á
vinnumarkaðnum. Hann telur að frumkvæðið að því myndi allt eins
geta komið frá hinu opinbera, í samráði við atvinnulífið, en að
Samtök atvinnulífsins séu tilbúin til samstarfs um að koma
orlofsmálum hér á landi í fastari skorður.