Ósanngjarnar byrðar

Mikið hefur verið rætt um sjálfbærni á undanförnum árum í tengslum við umhverfismál. Þetta hugtak á þó ekki síður við þegar kemur að rekstri hins opinbera en svo virðist sem stjórnmálamenn hafi margir hverjir ekki enn áttað sig á því. Samkvæmt lögum ber yfirvöldum að tryggja ýmiss konar réttindi og þjónustu um ókomna tíð. Hvort sem það er heilbrigðisþjónusta, skólavist, fæðingarorlof, örorka eða ellilífeyrir, þá treystum við á að auðlindir okkar og mannauður muni standa undir fjármögnun þessara réttinda þegar fram í sækir. Það er þó alls ekki sjálfgefið að svo verði.

Lög um opinber fjármál, sem tóku gildi 2016 eftir ítarlegt samráð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, voru stórt framfaraskref í átt að aukinni ábyrgð í opinberum fjármálum. Sjálfbærni er raunar eitt af fimm grunngildum laganna auk varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi og felst í því að „opinberar skuldbindingar séu viðráðanlegar til skemmri og lengri tíma og leggi ekki ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir“, líkt og segir í lögunum.

Lögin duttu ekki af himnum ofan. Fjármálaáfallið afhjúpaði veikleika og vanmetna áhættu víðar en í fjármálakerfinu. Í greinargerð með lögunum segir til að mynda: „Sveitarfélögin voru mörg hver orðin mjög skuldsett og svo mjög að skuldavandinn ógnaði sjálfbærni fjármála þeirra og þar með getu þeirra til þess að sinna lögbundnum verkefnum til framtíðar. Skuldaaukninguna mátti rekja til ónógs aðhalds í rekstri og þess að viðunandi öryggis hafði ekki verið gætt í fjárfestingum, lántökum og ráðstöfun eigna af hálfu sveitarfélaganna. Við fall íslensku krónunnar haustið 2008 hækkuðu skuldir enn fremur um leið og tekjur drógust saman.”

Á kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar hefur fjármálastefnan verið endurskoðuð tvisvar og lögum um opinber fjármál vikið til hliðar um fimm ára skeið í ljósi forsendubrests í efnahagslífinu. Varasamt er að ganga lengra í þessum efnum en brýn nauðsyn krefur. Þó að efnahagshorfur hafi versnað á skömmum tíma þarf engu að síður að tryggja aðhald í fjármálum hins opinbera, sem hefur dreift og frestað vandanum en ekki leyst hann.

Deila má um viðeigandi viðbrögð við þeim fjölbreyttu áskorunum sem efnahagslífið, og þar með ríkissjóður, hefur staðið frammi fyrir seinustu misseri. Samkvæmt nýju áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur gott samspil hagstjórnartækja, skjót viðbrögð og vel útfærðar aðgerðir stutt vel við heimili og fyrirtæki hingað til. En ekki er hægt að halda hagkerfinu í gjörgæslu endalaust. Áherslur í opinberum fjármálum munu nú þurfa að færast frá neyðaraðstoð yfir í arðbæra fjárfestingu innviða til stuðnings fjölbreyttu atvinnulífi, eins og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar tilgreinir og AGS fagnar. Þó að efnahagsaðgerðir hafi hingað til heppnast vel er óumdeilt að veiran hefur valdið verulegu tjóni og vegurinn fram á við því torfærari en ella. Úr takmörkuðum fjármunum verður að ráða.

Árangurstenging ríkisfjármála

Reglulega þarf að minna útgjaldaglaða frambjóðendur á þá staðreynd að auknar fjárheimildir eiga aldrei að vera sérstakur útgangs­punktur í stjórnmálaumræðunni. Enda felast verðmætar umbætur oft í breyttu hugarfari og nýrri nálgun fremur en meiri fjármunum. Auknar fjárveitingar einar og sér stytta hvorki biðlista né umferðartíma. Þær bæta hvorki námsárangur né auka skilvirkni ferla. Það gerir hins vegar lausnamiðað fólk sem er tilbúið að hugsa út frá sjónarhóli notandans og koma í gegn umbótum þó óvinsælar séu.

Til að forðast megi íþyngjandi skattahækkanir kemur fátt annað til greina en aukin hagræðing og árangurstenging ríkisfjármála.

Sjálfbærni er innbyggð grundvallarforsenda í fyrirtækjarekstri. Hagræðing og skynsamleg tilhögun fjármuna er því eilíft úrlausnarefni þar sem kröfur og endurgjöf viðskiptavina veita verðmætt aðhald. Hvatar eru öðruvísi stilltir hjá hinu opinbera. Þar er barist um bitana og virðast auknar fjárheimildir oft vera sjálfstætt markmið, óháð því hvernig þeim fjármunum almennings er varið eða hvort margumtöluð sjálfbærni sé tryggð. Fyrir nokkrum árum var til að mynda hvatt til þess að 11 prósentum af landsframleiðslu yrði varið til heilbrigðismála án þess að nokkur tilraun væri gerð til að tilgreina hvert markmið fjárheimildanna væri eða hvernig þetta hlutfall ætti að þróast með öldrun þjóðar. Erfitt er að undirstrika nægilega hversu röng þessi nálgun er.

Hagræðing er ekki tískuorð heldur stöðug vegferð sem á ekki síður við hjá hinu opinbera en fyrirtækjum og heimilum. Hún þarf ekki að fela í sér skerðingu á þjónustu sé vel að henni staðið, þvert á móti. Því til stuðnings má nefna og hrósa stafrænni vegferð núverandi ríkisstjórnar. Í stað þess að byrja á öfugum enda er verkefnið fram undan að viðurkenna og greina stærstu vandamál hvers málaflokks. Síðan þarf að setja töluleg markmið varðandi úrlausn þeirra, þar sem notandi þjónustunnar er settur í fyrsta sæti, og markmiðunum náð fram með eins skilvirkum hætti og völ er á. Að því loknu þarf raunverulega eftirfylgni svo hægt sé að meta árangurinn og aðlaga stefnu stjórnvalda til samræmis. Við erum eftirbátar annarra OECD-landa þegar kemur að árangurstengingu ríkisfjármála. Um hvernig megi gera bragarbót á, ættu komandi kosningar að snúast.

Til að forðast megi íþyngjandi skattahækkanir kemur fátt annað til greina en aukin hagræðing og árangurstenging ríkisfjármála. Að öðrum kosti blasir við viðvarandi hallarekstur sem hleypur á hundruðum milljarða króna og ekki sér fyrir endann á. Varla getur mörgum hugnast slík framtíðarsýn, sem vissulega felur í sér þungar og ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir – skattgreiðendur framtíðarinnar.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum. Anna Hrefna Ingimundardóttir er forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.