Öruggur hlekkur í aðfangakeðjunni
Tollstjóri hefur að undanförnu unnið að innleiðingu á AEO-vottun hér á landi. AEO er alþjóðleg gæðavottun sem felur í sér að fyrirtækið er talið vera öruggur hlekkur í aðfangakeðjunni, hefur tileinkað sér ábyrga tollmeðferð og uppfyllir kröfur um alþjóðlega vöruflutninga.
Markmiðið með innleiðingu á AEO öryggisvottun er að tryggja samkeppnishæfni íslensks útflutnings og stuðla að bættu markaðsaðgengi íslenskra útflutningsgreina. Fyrirtæki sem eru með starfsemi hér á landi og eru hluti af alþjóðlegu aðfangakeðjunni geta sótt um vottunina. Þessi fyrirtæki geta verið eftirfarandi: Inn- og útflytjendur, framleiðendur, farmflytjendur og tollmiðlarar.
Embætti Tollstjóra leitar nú eftir fyrirtækjum til að taka þátt í tilraunverkefninu „Viðurkenndir rekstraraðilar“ (AEO-vottun). Valin verða nokkur fyrirtæki sem gegna mismunandi hlutverkum í aðfangakeðjunni til að vera þátttakendur í verkefninu. Markmiðið er að prófa umsóknar- og vottunarferlið áður en AEO-vottunin verður formlega tekin í notkun. Í lok verkefnisins mun fyrirtækið hljóta AEO-vottun þar sem það staðfestist að fyrirtækið stenst öll öryggisskilyrðin og getur sýnt fram á fullnægjandi ferla í tollframkvæmd.
Við val á fyrirtækjum í tilraunaverkefnið verður meðal annars tekið tillit til eftirfarandi atriða:
- Umfang viðskipta, fjölda tollskýrslna og heildarfjárhæðir viðskipta.
- Víðtæk alþjóðleg viðskipti og millilandaflutningar.
- Staða öryggismála og öryggisvitund innan fyrirtækisins, einkum m.t.t. öryggis alþjóðlegu aðfangakeðjunnar.
- Til staðar sé virkt gæðakerfi, hugað sé að meðhöndlun frávika, innra eftirliti og umbótastarfi.
- Dótturfyrirtæki eða móðurfyrirtæki sem hlotið hafa AEO-viðurkenningu erlendis.
- Hlutverk fyrirtækisins í aðfangakeðjunni.
Þeir rekstraraðilar sem hafa áhuga á að taka þátt í tilraunaverkefninu eru beðnir um að senda inn beiðni um þátttöku með því að senda tölvupóst á aeo@tollur.is. Nánari upplýsingar veitir Elvar Örn Arason, umsjónarmaður AEO, í gegnum tölvupóst elvar.arason@tollur.is eða í síma 894 2409.
Fresturinn til að senda inn umsókn er miðvikudagurinn 6. júní 2018.