Orlofs- og desemberuppbætur sem hluti launa

Í kjarasamningum er kveðið á um rétt starfsmanna til orlofs- og desemberuppbótar. Í flestum tilvikum eru þessar uppbætur greiddar sérstaklega í júní og desember ár hvert en einnig þekkist að þær séu greiddar jafnóðum út með launum. Samið hefur verið um sérstaka viðbótarhækkun orlofs- og desemberuppbótar.

Orlofsuppbót hækkar um kr. 10.000 og desemberuppbót um kr. 20.000. Er þessi hækkun endurgjald fyrir tveggja mánaða lengingu samningstíma, þ.e. til loka febrúar 2015. Þar sem samið hefur verið um að orlofs- og desemberuppbætur séu innifaldar í mánaðarlaunum þá er hækkun uppbóta ekki sjálfkrafa innifalin í mánaðarlaunum. Greiða verður þessa hækkun sérstaklega, annað hvort í júní og desember samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina eða fella hækkunina inn sem kr. 2.500 heildarhækkun mánaðarlauna (30.000 / 12).

Hjá byggingamönnum og rafiðnaðarmönnum er nokkuð algengt að uppbætur séu greiddar sem hluti tímakaups. Ef uppbætur eru greiddar út jafnharðan þá er mikilvægt að tilgreina á launaseðli eða í ráðningarsamningi að uppbætur séu innifaldar í tímakaupi. Ef upp kemur ágreiningur er það hlutverk vinnuveitanda að tryggja sönnun þess að uppbætur séu innifaldar í kaupi.

Samið hefur verið við RSÍ og Samiðn um hækkun uppbóta sem greiddar eru út jafnharðan. Uppbætur hækka samtals um kr. 14,43 á klst. í dagvinnu. Hækkun orlofsuppbótar er þar af kr. 4,81 á klst. og desemberuppbót kr. 9,62 á klst. Hækkunin gildir frá 1. febrúar 2014 hjá RSÍ og frá 1. maí 2014 hjá Samiðn. Þar sem þessi hækkun sem hluti tímakaups nær einungis til hluta orlofsársins 2013 - 2014 / almanaksársins 2014 fer fram sérstakt uppgjör vegna hækkunar uppbóta. Eingreiðslur hjá þessum félögum eru ekki þær sömu enda er gildistaka hækkunar uppbóta sem hluti tímakaups ekki sú sama.