Opinn fundur um útiræktun á erfðabreyttu byggi

Umhverfisstofnun hefur til meðferðar umsókn fyrirtækisins ORF Líftækni hf. varðandi leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi. Talsverð umræða hefur farið fram að undanförnu um þetta mál en í dag kl. 13 efnir Umhverfisstofnun til upplýsingafundar á Grand Hótel Reykjavík. Stofnunin telur mikilvægt að fólk sé upplýst um málið. ORF er stærsta fyrirtæki Evrópu á sínu sviði en 26 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu á Íslandi.

ORF Líftækni er íslenskt hlutafélag sem framleiðir og selur verðmæt, sérvirk prótein sem notuð eru í læknisfræðilegum rannsóknum, lyfjaþróun og sem lyf. Framleiðslan fer fram í erfðabreyttu byggi og er mun hagkvæmari og hreinni en hefðbundin framleiðsla í bakteríum eða spendýrafrumum. Einnig felst mikið öryggi í að framleiða slík prótein í plöntum sem ekki geta borið  sýkingar í menn. ORF framleiðir ekki erfðabreytt matvæli eða fóður.

Fundur Umhverfisstofnunar hefst kl. 13 í dag og stendur til kl. 16. Á fundinum mun fulltrúi stofnunarinnar fara yfir helstu mál er varða forsendur fyrrgreindrar leyfisveitingar, fulltrúi ORF Líftækni hf. kynnir starfsemi fyrirtækisins auk þess sem fulltrúar Náttúrufræðistofnunar Íslands og Ráðgjafarnefndar um erfðabreyttar lífverur kynna framkomnar umsagnir um fyrirhuguð áform fyrirtækisins um útiræktun.

ORF Líftækni hlaut Nýsköpunarverðlaun Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar og Útflutningsráðs árið 2008.

Sjá nánar:

Nánari upplýsingar á vef Umhverfisstofnunar

Fróðleikur um ORF Líftækni á vef fyrirtækisins