Ólöglegar eftirlíkingar af framleiðsluvörum á Íslandi

Á síðustu árum hafa ýmis konar eftirlíkingar af framleiðsluvörum, flestar upprunnar í Kína, flætt yfir Vesturlönd. Ísland er þar ekki undanskilið en bæði er um að ræða dreifingu á eftirlíkingum af þekktum húsgögnum og einnig öðrum vörum sem eru merktar með vörumerkjum annarra aðila. Erfitt getur verið fyrir fyrirtæki að verjast þessari meinsemd en í íslenskum tollalögum er að finna heimild fyrir tollyfirvöld að uppfylltum tilteknum skilyrðum að fresta tollafgreiðslu ef sýnt þykir að innflutningur vöru brjóti gegn hugverkaréttindum. Nýleg lög veita einnig heimild fyrir rétthafa sem telja brotin á sér hugverkaréttindi að óska þess að sýslumaður framkvæmi leit í húsakynnum þess sem talinn er brotlegur. Lögunum hefur þegar verið beitt á Íslandi og á þessu ári og síðasta ári gengu dómar í tveim málum hér á landi þar sem niðurstaðan var sú að banna dreifingu eftirlíkinga af þekktum stólum.

 

Hönnunarfyrirmyndir njóta verndar

Talið er að um 60% af ólöglegum varningi af ýmsu tagi í Evrópusambandinu komi frá Kína. Fjallað var um þetta nýverið á vef SA en dönsk fyrirtæki þurfa t.d. að horfast í augu við það í auknum mæli að hugverkum þeirra er stolið. Gæði eftirlíkinganna frá Kína fara jafnframt vaxandi og oft þarf sérfræðinga til að greina í sundur upprunalega vöru og ólöglegar eftirlíkingar. Erla S. Árnadóttir, hæstaréttarlögmaður, hefur sérhæft sig í hugverkarétti en hún segir að húsgögn sem mikil hönnunarvinna hefur verið lögð í fái oft stöðu sem svokallaðar hönnunarfyrirmyndir (e. design icon). Þau njóti verndar sem nytjalist samkvæmt ákvæðum höfundalaga og unnt sé að skrá hönnunarvernd fyrir slík húsgögn en þar með njóti hönnunin verndar samkvæmt ákvæðum laga um hönnun. Erla segir að í slíkum tilvikum skipti ekki máli undir hvaða vörumerki eftirlíking er markaðssett og seld heldur einungis það að varan er ólögmæt eftirlíking af hönnunarvörunni.

Hvað er til ráða?

Í Danmörku eru samtök iðnaðarins þar í landi í samstarfi við stjórnvöld að velta fyrir sér leiðum til að sporna gegn stuldi á hugverkum fyrirtækja og hönnuða en það getur reynst erfitt að komast að rótum vandans. Erla S. Árnadóttir bendir þó á að fyrirtæki sem hafi einkarétt til að dreifa hönnun geti iðulega byggt hvort heldur sem er á höfundarétti eða hönnun. "Unnt er að fá lagt lögbann við innflutningi og sölu slíkra vara og fá síðan lögbannið staðfest fyrir dómi. Einnig er unnt að fá dæmda upptöku á óseldum eintökum hinna ólöglegu eftirlíkinga. Rétthafar eiga rétt á skaðabótum fyrir fjárhagslegt tjón er þeir verða fyrir vegna slíkra brota," segir Erla en jafnframt eiga höfundar rétt til miskabóta fyrir þann miska sem þeir verða fyrir, aðallega vegna brota á sæmdarrétti sínum. "Á þessu ári og síðasta ári gengu dómar í tveim málum hér á landi þar sem niðurstaðan var sú að banna dreifingu eftirlíkinga af þekktum stólum, annars vegar norska Tripp Trapp barnastólnum og hins vegar ítalska stólnum Bombo sem þekktastur er sem barkollur. Í báðum þessum málum var hinum brotlegu fyrirtækjum gert til að hætta dreifingu eftirlíkanna, óseldar birgðir gerðar upptækar og fyrirtækjunum gert að greiða skaðabætur."

Lögbann á eftirlíkingar

Aðrar framleiðsluvörur en húsgögn, svo sem tískufatnaður, handtöskur, hálsklútar og aðrir fylgihlutir eru seldar undir þekktum vörumerkjum og apa óprúttnir aðilar eftir slíkum vörum í ríkum mæli. Erla segir þó hægt að verja sig gagnvart slíku athæfi. "Unnt er að skrá hönnun fyrir útliti eða mynstrum á slíkum vörum. Þar sem vörumerki skipta afar miklu máli fyrir markaðssetningu og sölu þessara vara er þó algengast að rétthafar byggi á vörumerkjavernd. Það sama gildir og um húsgögnin að unnt er að fá lagt lögbann við innflutningi og sölu slíkra eftirlíkinga, fá dæmda eignaupptöku óseldra birgða og brotin varða skaðabótum fyrir fjárhagslegt tjón og miskabótum vegna miska. Á síðasta ári gekk t.d. dómur í Hæstarétti þar sem innflytjanda fæðubótaefnis var dæmt að greiða eiganda vörumerkis skaðabætur er svöruðu til hæfilegs endurgjalds fyrir óheimila notkun vörumerkisins."

Frestun á tollafgreiðslu og húsleit

Í tollalögum er einnig að finna heimild fyrir tollyfirvöld að uppfylltum tilteknum skilyrðum að fresta tollafgreiðslu ef sýnt þykir að innflutningur vöru brjóti gegn hugverkaréttindum. Þessari heimild er unnt að beita þegar nokkuð ljóst er að vörumerkjaréttur hefur verið brotinn, svo sem með innflutningi vara sem eru ranglega merktar með vörumerki sem nýtur réttar hér á landi. "Á síðasta ári voru sett lög um öflun sönnunargagna vegna brota á hugverkaréttindum. Þau veita heimild fyrir rétthafa sem telja brotin á sér hugverkaréttindi til að óska þess að sýslumaður framkvæmi leit í húsakynnum þess sem talinn er brotlegur. Líklegt er að þessum lögum verði beitt í tilvikum þar sem rétthafi hefur ekki undir höndum nauðsynleg sönnunargögn um brot en það getur m.a. átt við þegar brotið er yfir rétti til hugbúnaðar. Lögunum hefur þegar verið beitt, a.m.k. í einu tilviki," segir Erla.

Sjá einnig: Frétt SA um ólöglegar eftirlíkingar í ESB