Öll í takt
Engum dyljast stórstígar framfarir í landinu á síðari hluta 20. aldar. Hagur alls almennings batnaði jafnt og þétt, lífskjör urðu sambærileg því sem best gerist. Stórstígar framfarir urðu í almennum innviðum; heilbrigðiskerfi, samgöngum, orkukerfi, fjarskiptum ásamt því að starfsemi ríkis og sveitarfélaga efldist mjög.
Allar þessar framfarir byggðust að verulegu leyti á sívaxandi styrk atvinnulífsins, gríðarlegri aukningu útflutningstekna, miklum skipulagsbreytingum, sérhæfingu og frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja um að sækja fram, stunda nýsköpun og öfluga markaðssókn. Áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda varð einnig lykill þess að horfa til lengri tíma og hámarka þannig arðsemi auðlindanna í þágu komandi kynslóða.
Frjáls alþjóðaviðskipti hafa lagt grunn að öflugum útflutningi og tryggja hagkvæman aðgang að vörum og þjónustu sem ekki eru eða verða til innanlands. Þessi viðskipti eru byggð á alþjóðlegum samningum þar sem leitast er við að afnema tolla og aðrar viðskiptahindranir hvort sem er takmörkun fjármagnsflutninga, höfundaréttar eða veitingu þjónustu á milli landa. Einnig hefur skipt máli að Íslendingar hafa verið iðnir að sækja sér menntun og fróðleik til annarra landa og flytja heim með sér dýrmæta þekkingu og reynslu. Á síðustu áratugum hefur einnig skipt máli að fjölbreytt fólk hefur tekið sér búsetu hér á landi og samfélagið allt notið góðs af því.
Ísland hefur undanfarna áratugi borið gæfu til að eiga aðild að öflugum viðskiptasamningum en gerð þeirra hófst að lokinni seinni heimsstyrjöldinni. Mestu hafa skipt samningar um aðild að EFTA og síðar að Evrópska efnahagssvæðinu. Nú er svo komið að viðskiptasamningar sem Ísland á aðild að skipta tugum og ná til flestra heimssvæða og alls kyns viðskipta.
Samstarf atvinnulífsins og stjórnvalda um þjónustu við fyrirtæki og viðskiptahagsmuni erlendis hefur jafnan verið gott og stjórnvöld brugðist við óskum fyrirtækja um aðstoð við þessa hagsmuni víða um heim.
Nú síðast varð eðlisbreyting á Íslandsstofu sem er rekin sem sjálfseignarstofnun í eigu ríkisins og atvinnulífsins og þjónustar víðtæka hagsmuni sem bæði eru mikilsverðir hér innan lands auk þess að skipta fjöldamörg útflutningsfyrirtæki mjög miklu við öflun nýrra markaða og aukna sókn á eldri markaði.
Öllu þessu er lýst í skýrslu utanríkisráðuneytisins ÁFRAM GAKK – Utanríkisviðskiptastefna Íslands, sem út kom í síðasta mánuði. Samningum Íslands er þar lýst ásamt þróun í alþjóðaviðskiptum síðustu áratugi. Mikill fengur er að skýrslunni og er hún afar gagnleg þeim sem vilja kynna sér þróun viðskiptasamninga, eðli þeirra og nytsemi fyrir einstök fyrirtæki, atvinnulífið og samfélagið í heild.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.