Ólíðandi starfsumhverfi
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 það óþolandi að óprúttnir aðilar skapi sér samkeppnisforskot með brotum á lögum og kjarasamningum. Tilefnið var handtaka embættis héraðssaksóknara á níu mönnum í síðustu viku en tvö verktakafyrirtæki eru grunuð um stórfelld skattalagabrot.
Málið er talið alvarlegt en mansalsteymi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu tók einnig þátt í aðgerðunum og rannsakar hvort um vinnumansal gæti verið að ræða auk skattaundanskota.
Þorsteinn Víglundsson segir að misnotkun sem þessa verði að fyrirbyggja með öllum tiltækum ráðum. Samkeppnisforskot lögbrjóta sé ólíðandi starfsumhverfi fyrir þann þorra fyrirtækja sem starfi með heiðarlegum hætti og standi skil á öllum sköttum og skyldum. Það sé jafnframt ólíðandi að einhver fyrirtæki skapi sér samkeppnisforskot með svartri atvinnustarfsemi eða með því að hlunnfara starfsfólk.
Framkvæmdastjóri SA segir að taka verði mál þar sem grunur leikur á skattaundanskotum eða brotum á kjarasamningum föstum tökum strax, þar sem ljóst sé að atvinnulífið þurfi að reiða sig í vaxandi mæli á erlent starfsfólk á næstu árum. „Við byggjum ekki upp velferð hér á undirboði á vinnumarkaði eða skattaundanskotum atvinnulífsins og þess vegna fordæmum við alltaf slíka starfsemi.“ Þorsteinn segir ánægjulegt að sjá hversu hart er tekið á þessum málum og að sýnt sé í verki að fyrirtæki komist ekki upp með slíka starfshætti.
Á árlegum fundi Samtaka atvinnulífsins með fjölmiðlum í upphafi ársins vöktu SA athygli á því að framundan væru risavaxnar áskoranir á íslenskum vinnumarkaði vegna öldrunar þjóðarinnar og mikillar örorkubyrði. Til að viðhalda góðum hagvexti til framtíðar væri meðal annars nauðsynlegt að fá mikinn fjölda erlends starfsfólks til landsins og auka framleiðni verulega í efnahagslífinu. Því var spáð að hlutfall erlendra ríkisborgara verði orðið 20% innan ekki langs tíma en hlutfallið er 8% í dag.
Mikilvægt er að Íslendingar taki vel á móti því erlenda starfsfólki sem atvinnulífið þarfnast og með öllu ólíðandi að óprúttnir aðilar virði ekki þau réttindi sem starfsfólk nýtur á íslenskum vinnumarkaði.
Tengt efni: