Öflugt atvinnulíf er hagur allra

Á liðnum haustmánuðum átti ég þess kost að ferðast um landið og heimsækja fjölmarga og fjölbreytilega vinnustaði í haustfundaröð Samtaka atvinnulífsins. Hvarvetna var hugur í fólki og víða var verið að útfæra áætlanir um frekari sókn í framleiðslu og sölu á erlenda markaði. Atvinnulífið er undirstaða byggðar í landinu, velgengni fyrirtækja endurspeglast í bæjarbragnum.

Nú stendur yfir lengsta hagvaxtartímabil lýðveldisins samtímis sem kaupmáttur launa og ráðstöfunartekna fólks hefur ekki verið meiri í annan tíma.

Á undanförnum árum hefur rekstur sjávarútvegsfyrirtækja styrkst og þau eru víða kjölfestan í atvinnulífi á viðkomandi svæði. Við hlið þeirra þrífast margvísleg sprotafyrirtæki. Ferðaþjónusta hefur eflst víða um land og margvíslegur matvælaiðnaður er öflugur. Fiskeldi hefur verið byggt upp af miklum myndarskap og er ástæða til að fagna áformum um frekari fjárfestingar á þessu sviði sem geta styrkt byggðir og atvinnu fólks þótt gæta þurfi öryggis og umhverfissjónarmiða hér sem annars staðar.

Nú stendur yfir lengsta hagvaxtartímabil lýðveldisins samtímis sem kaupmáttur launa og ráðstöfunartekna fólks hefur ekki verið meiri í annan tíma. Þetta má sjá í daglegu lífi fólks í smáu sem stóru; utanferðir, jólaverslun, aðsókn að fjölbreyttum tónleikum og öðrum menningarviðburðum svo dæmi séu tekin. Einnig hafa skuldir heimila lækkað og þau þannig búið í haginn til framtíðar.

Dag skal að kveldi lofa segir gamalt máltæki. Uppgangur í atvinnulífi á sínar skýringar og forsendur. Kapp er best með forsjá. Framundan kunna að vera breyttir tímar ef forsjálni og fyrirhyggja ráða ekki ríkjum. Margt bendir til þess að vöxtur landsframleiðslunnar verði ekki jafn ör og hin síðustu ár.

Gangverk þjóðarbúsins og þjóðfélagsins er samfelld hringrás. Ef einn hlekkur rofnar eða verður fyrir hnjaski þá mun það hafa áhrif á aðra þætti gangverksins. Það er því mikilvægt að þeir sem stýra fyrirtækjum og standa í atvinnurekstri sýni ávallt forsjálni og að- gát.

Á næstu vikum ræðst hvort kjarasamningum á almennum vinnumarkaði verður sagt upp. Að mati Samtaka atvinnulífsins eru engar forsendur til annars en að þeir haldi gildi sínu

Mörg dæmi eru um að ytri áhrif, ófyrirséð eða óviðráðanleg, hafa haft veruleg áhrif á fyrirtækjarekstur til verri vegar sem fyrr en varir birtist í versnandi afkomu launafólks og um leið ríkissjóðs. Þá reynir á fyrirhyggju og forsjálni. Að bæði fólk, fyrirtæki og opinberir sjóðir hafi búið í haginn til framtíðar.

Ríkisstjórnarinnar bíða margvísleg verkefni sem munu hafa veruleg áhrif á atvinnulíf og þar með byggðir og búsetu í landinu. Svo vel takist til verður hún að hafa stuðning og skilning fólksins í landinu og þeirra sem eru í forsvari fyrir atvinnulífið.

Mikilvægt er að niðurstaða um kaup og kjör launafólks á opinberum markaði sem og almennum markaði skaði ekki samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja á alþjóðlegum markaði.

Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja er ekki síður háð ákvörðunum Alþingis um umsvif ríkisins. Allar skattahækkanir bitna að lokum á almenningi. Skattar á fyrirtæki draga úr getu þeirra til að hækka laun, fjölga starfsfólki og standast erlenda samkeppni. Skattar á fjármagnseigendur draga úr getu og vilja til fjárfestinga og draga úr vexti efnahagslífsins og sköpun nýrra starfa.

Aukning ríkisútgjalda í efnahagsuppsveiflu mun óhjákvæmilega leiða til niðurskurðar þegar til samdráttar kemur í kjölfarið og tekjustofnar dragast saman. Það er vandasamt að stýra ríkissjóði þegar vel gengur en ekki síður þegar verr árar. Í væntanlegri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er hvorki efni til aukningar ríkisútgjalda né rými til skattahækkana. Þvert á móti eru kjöraðstæður til að skapa svigrúm fyrir skattalækkanir með því að draga úr umsvifum ríkisins. Það eru tækifæri til að forgangsraða í rekstri ríkisins og nýta betur skattfé landsmanna.

Á næstu vikum ræðst hvort kjarasamningum á almennum vinnumarkaði verður sagt upp. Að mati Samtaka atvinnulífsins eru engar forsendur til annars en að þeir haldi gildi sínu til umsamins tíma í árslok 2018. En óvíst er um framhald því ákvarðanir kjararáðs um kaup og kjör alþingismanna og annarra hátt settra starfsmanna ríkisins hafa valdið ólgu. Launabreytingar í úrskurðum ráðsins eru langt umfram það sem aðrir hafa notið.

Á þennan hnút verður ríkisstjórnin að höggva. Það er mikið undir. Efnahagsþróun næstu ára.

Ég óska landsmönnum öllum gleðilegs árs.

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. desember 2017