Óbeinn launakostnaður

Laun eru langstærsti kostnaðarliður flestra fyrirtækja en til launakostnaðar teljast ekki eingöngu greidd laun fyrir vinnuframlag heldur einnig laun fyrir óunninn tíma og launatengd gjöld. Saman mynda þessir þrír liðir heildarlaunakostnað.

Atvinnurekendur greiða laun fyrir óunninn tíma af ýmsu tagi, þ.e. í orlofi, á sérstökum frídögum, í veikindum starfsmanna og barna þeirra og í samningsbundnum neysluhléum. Launatengd gjöld greiðast til ríkisins, lífeyrissjóða og ýmissa sjóða tengdum stéttarfélögum.

Heildarlaunakostnaður starfsmanna er að jafnaði um 60 prósent hærri en laun fyrir unninn tíma. Af hverjum 1.000 kr. sem starfsmaður fær fyrir unninn tíma greiðir atvinnurekandi 300 kr. að jafnaði í launatengd gjöld og 300 kr. í laun fyrir óunninn tíma eða samtals 1.600 kr. Atvinnurekandi með tíu starfsmenn greiðir því sem jafngildir launum sextán starfsmanna fyrir unninn tíma.

Launataxtar hækkuðu um 24.000 kr. skv. Lífskjarasamningnum þann 1. janúar síðastliðinn. Heildarlaunakostnaður hækkaði um 60% umfram það eða um 38.400 kr. Hjá verslun með tíu starfsmenn sem fá greidd laun skv. umsömdum launatöxtum, hækkaði heildarlaunakostnaður því um 384.000. kr. á mánuði. Til samanburðar eru kjarasamningsbundin dagvinnulaun afgreiðslufólks sem hefur unnið eitt ár í verslun 343.067 kr. Hækkun launakostnaðar í tíu starfsmanna verslun var því meiri en laun eins starfsmanns fyrir unninn tíma.

Upplýsingar um heildarlaunakostnað á Vinnumarkaðsvef Samtaka atvinnulífsins.