Nýtt rit SA: Samkeppnislögin og framkvæmd þeirra

Á vef SA má nú nálgast nýtt rit Samtaka atvinnulífsins um samkeppnislögin, framkvæmd þeirra og viðhorf atvinnulífsins. Í inngangi ritsins segir að um nokkra hríð hafi áhyggjur vaxið innan atvinnulífsins um þróun samkeppnismála hér á landi sem hafi birst á ýmsan hátt. Bæði finnst forsvarsmönnum fyrirtækja erfitt að átta sig á inntaki samkeppnislaganna og eins hvernig þeim er beitt. Fyrirtæki geta t.d. hvorki fengið upplýsingar um hvernig þau geti metið hvort þau teljist í svokallaðri markaðsráðandi stöðu né hvernig þeim beri að haga markaðsstarfi þannig að það samrýmist stöðu þeirra.

Smelltu til að sækjaEkki er heldur auðvelt að átta sig á því hvernig samkeppnisyfirvöld skilgreina einstaka markaði en það hefur lykilþýðingu fyrir fyrirtækin. Engar almennar leiðbeiningar hafa verið gefnar út af hálfu hins opinbera í þessum efnum og er fyrirtækjum gjarnan bent á að kynna sér lög, ákvarðanir og úrskurði samkeppnisyfirvalda og eins niðurstöður dómstóla. Hafa verður í huga að langflest íslensk fyrirtæki eru smá og að samkeppnismálin eru mjög flókin og að litlu leyti skráð og skjalfest þannig að einfalt sé að setja sig inn í þau.

Gildandi samkeppnisreglur eru flestar tilkomnar vegna aðildar Íslands að EES-samningnum og samkeppnislögin eru óvenju opin og matskennd og erfitt að átta sig á raunverulegu innhaldi þeirra.

Túlkun Evrópudómstólsins og framkvæmdastjórnar ESB á samkeppnisreglunum verða Samkeppniseftirlitinu að fyrirmynd og rata breytingar þar inn í túlkun laga hér á landi. Þetta gerist án aðkomu löggjafans og það er því ekkert skrýtið þótt forsvarsmönnum einstakra fyrirtækja reynist erfitt að fóta sig á því hála svelli og átta sig á breytingum sem þessi mál taka. Ekki bætir úr skák að samkeppnislögin hafa tekið verulegum breytingum á síðustu árum hér á landi og eru nú að ýmsu leyti úr takti við evrópskan samkeppnisrétt.

Fyrirtækin eru ósátt

Samtök atvinnulífsins könnuðu fyrir skemmstu viðhorf félagsmanna til 20 eftirlitsaðila með fyrirtækjum á Íslandi - þó ekki allra. Spurt var hversu sáttir forsvarsmenn fyrirtækja væru við starfsemi eftirlitsstofnana miðað við það hlutverk sem þeim er falið. Skemmst er frá því að segja að sáttastir reyndust menn við starfsemi lögreglunnar, Umferðarstofu og Vinnueftirlits ríkisins. Ósáttastir voru forsvarsmenn fyrirtækja við starfsemi Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans og Samkeppniseftirlitsins.

Sú ályktun sem helst er unnt er að draga af þessum niðurstöðum er að því matskenndari og óljósari sem lög, reglur og heimildir eftirlitsstofnana eru þeim mun meiri er óánægjan. Athugasemdir berast frá fyrirtækjum um að þau hiki við að leita til Samkeppniseftirlitsins vegna þess neikvæða viðhorfs sem þeim finnst ríkja þar í garð atvinnulífsins.

Langur tími og skrýtið viðhorf

Mjög er kvartað undan því hvað mál taki langan tíma í meðförum enda geta liðið mörg ár frá því að rannsókn yfirvalda hefst þar til endanleg niðurstaða fæst, sérstaklega ef mál fara til úrskurðar áfrýjunarnefndar og síðar dómstóla. Þetta veldur þeim sem til rannsóknar eru miklum erfiðleikum.

En þessi langi tími er ekki síður erfiður þeim sem sent hafa ábendingu eða kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna þess að þeim finnst á sér brotið á markaðnum. Einnig er bent á að aðgerðir og afgreiðslur Samkeppniseftirlitsins séu ekki fyrirsjáanlegar.

Bent hefur verið á að Samkeppniseftirlitið leggi áherslu á það í kynningu á starfsemi sinni að það hafi lagt á stjórnvaldssektir sem nemi gífurlegum fjárhæðum í stað þess að beita almennum leiðbeiningum og fyrirbyggjandi ráðgjöf, þótt sjálfsagt megi halda því fram að háar sektir geri fyrirtækin vör um sig.

Ef lögreglan myndi nota þessa aðferð við að stjórna umferðinni og berjast gegn hraðakstri myndi hún eingöngu framkvæma hraðamælingar og beita háum sektum fyrir akstursbrot í stað þess að setja upp umferðarskilti og almennar merkingar á vegum. Ekki er það heldur háttur lögregluyfirvalda að birta tölur um álagðar sektir og nota sem rökstuðning fyrir auknum fjárveitingum til sín.

Mikilvægi samkeppnisreglna

Samstaða ríkir í atvinnulífinu um að samkeppnisreglur séu mjög mikilvægar til að tryggja virka og heilbrigða samkeppni á markaði og koma í veg fyrir ólögmætt samráð, misnotkun á markaðsráðandi stöðu og mismunun á markaði t.d. vegna opinberra afskipta. Hins vegar getur það ekki verið hlutverk samkeppnisyfirvalda að stýra uppbyggingu atvinnulífsins og hamla hagræðingu og aukinni framleiðni. Hafa verður í huga að vegna smæðar íslensks atvinnulífs er fákeppni algengari en á mörkuðum stærri ríkja og því verður að haga reglum og beitingu þeirra þannig að ekki verði dregið óhóflega úr hagkvæmni og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Í kjölfar bankahrunsins beitti Samkeppniseftirlitið sér fyrir mikilvægri umræðu um hvernig best yrði tryggð öflug uppbygging atvinnulífsins og hvernig best væri að bregðast við minni samkeppni á mörkuðum þar sem fyrirtæki hefðu farið í þrot. Fjallað var um fjárhagsstöðu og fjárhagslega endurskipulagningu stórra fyrirtækja á völdum samkeppnismörkuðum.

Samkeppniseftirlitið leiðbeindi bönkum og fjármálafyrirtækjum um hvernig best væri að tryggja virka samkeppni á sem flestum mörkuðum. Margt var vel gert, þótt einnig hafi verið kvartað yfir því að mál hafi tekið langan tíma í meðförum stjórnvalda. Það er stofnuninni til hróss að vefur hennar er mjög öflugur og þar er að finna ógrynni upplýsinga ásamt reglum um m.a. málsmeðferð og tilkynningu samruna.

Vinnuhópur SA

Samtök atvinnulífsins ákváðu í ljósi stöðu samkeppnismála á Íslandi að kalla saman hóp fólks til að fjalla um stöðu og þróun samkeppnismála hér á landi og bera saman við nágrannalöndin. Fjallað yrði um löggjöfina, starf Samkeppniseftirlitsins og ákvarðanir þess, starf og úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála og niðurstöður dómstóla. Lagðar yrðu fram tillögur til úrbóta eftir því sem efni stæðu til og er þær að finna í þessari skýrslu.

Þeir sem unnið hafa að þessu verkefni eru Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu; Friðrik Friðriksson, lögfræðingur hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna; Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar; Jóna Björk Guðnadóttir lögfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja; Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins; Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Leitað var eftir skoðunum og viðhorfum fjölda fólks í fyrirtækjum, stórum sem smáum. Heimir Örn Herbertsson, hrl. hjá Lex og Árni Vilhjálmsson, hrl. og Ívar Bragason, hdl. hjá Logos lásu yfir skjalið og komu með ábendingar. Samtök atvinnulífsins kunna þessu fólki bestu þakkir.

Sjá nánar:

Viðhorf atvinnulífsins. Samkeppnislögin og framkvæmd þeirra (PDF)