Nýir forstöðumenn Samtaka atvinnulífsins

Skipulagsbreytingar hafa tekið gildi hjá Samtökum atvinnulífsins. Tveir nýir forstöðumenn hafa tekið við störfum og samtökin jafnframt tekið við rekstri rekstarfélags Húss atvinnulífsins. Skipulagsbreytingarnar eru gerðar til að skerpa þjónustu við 2.000 aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins og renna stoðum undir þann sterka grunn sem hefur verið byggður á undanförnum árum.

Davíð ráðinn forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs SA
Davíð Þorláksson hefur verið ráðinn forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins. Um leið verða mennta- og nýsköpunarsvið annars vegar og kynning og miðlun hins vegar sameinuð samkeppnishæfnisviði.

Davíð hefur verið yfirlögfræðingur Icelandair Group frá árinu 2009 ásamt því að vera framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Lindarvatns frá árinu 2015. Hann er með MBA gráðu frá London Business School, varð héraðsdómslögmaður árið 2009 og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2006. Davíð var yfirlögfræðingur fjárfestingabankans Askar Capital árin 2007-2009, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands árin 2005-2007 og samhliða því verkefnastjóri við lagadeild Háskólans í Reykjavík árin 2006-2007.

Hann hefur verið pistlahöfundur í Viðskiptablaðinu frá árinu 2015 og í stjórn Kanadísk-íslenska viðskiptaráðsins frá árinu 2011. Davíð var formaður stýrihóps mennta- og menningarmálaráðherra um máltækni fyrir íslensku, sat í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna árin 2015-2017, var varamaður í háskólaráði Háskóla Íslands árin 2014-2016, var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna árin 2011-2013 og sat í ráðgjafanefndum EES og EFTA árin 2005-2007.

Ingibjörg ráðin forstöðumaður rekstrarsviðs SA
Ingibjörg Björnsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður rekstrarsviðs Samtaka atvinnulífsins. Sviðið stýrir öllum samrekstri Húss atvinnulífsins og annast fjármálaumsvif og tölvuþjónustu fyrir Hús atvinnulífsins.

Ingibjörg varð héraðsdómslögmaður 2007 og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2005. Hún hefur starfað sem löglærður fulltrúi hjá Lögmönnum í Skipholti og Logos lögmannsstofu sem og lögmaður og einn eigenda Emblu lögmanna þar sem hún sinnti einkum skiptastjórn og ráðgjöf fyrir slitastjórn Landsbanka Íslands. Hún hefur um árabil starfað sem rekstrarráðgjafi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og hlaut viðurkenningu sem bókari árið 2000. Ingibjörg hefur setið í stjórn fjölda fyrirtækja og félagasamtaka.

Arndís ráðin skrifstofustjóri SA
Arndís Arnardóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri SA.


Arndís hefur starfað hjá SA og rekstrarfélagi Húss atvinnulífsins og gegnt ýmsum störfum á þeim vettvangi frá árinu 1999. Arndís er með BS gráðu í viðskiptafræði og var forstöðumaður rekstrarsviðs Húss atvinnulífsins frá árinu 2014. Á árunum 1984-1995 starfaði hún sem sölumaður og ritari söludeildar hjá Mjólkursamsölunni.

María ráðin á rekstrarsvið SA
María Árnadóttir hefur verið ráðin sem innheimtufulltrúi á rekstrarsviði SA. María hefur starfað hjá verkfræðistofunni Mannvit sem launafulltrúi og gjaldkeri frá árinu 2005, hjá HB-Granda sem launafulltrúi og gjaldkeri árin 1999-2005, hjá Krabbameinsfélagi Íslands við bókhald árin 1990-1999 og hjá HB-Granda sem launafulltrúi árin 1984-1990.

Arnar Sigurmundsson ráðinn ráðgjafi SA í lífeyrismálum
Arnar hefur verið ráðinn ráðgjafi Samtaka atvinnulífsins í lífeyrismálum og mun styðja við framkvæmdastjórn í stefnumótun í lífeyrismálum og sinna utanhaldi um samskipti við sjóðina.


Hann var formaður Samtaka fiskvinnslustöðva árin 1987-2014 og tók virkan þátt í að sameina Samtök fiskvinnslustöðva og Landssamband íslenskra útvegsmanna og stofna Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi í árslok 2014. Arnar starfaði í Vestmannaeyjum á gostímanum árið 1973 og varð framkvæmdastjóri Viðlagasjóðs haustið 1973.

Arnar var stjórnarmaður í Vinnuveitendasambandi Íslands árin 1986-1999 og var haustið 1999 kjörinn í fyrstu stjórn Samtaka atvinnulífsins þar sem hann sat samfellt til ársins 2015. Hann tók virkan þátt í gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði um áratugaskeið.

Arnar tók sæti í stjórn Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja árið 1980 og sat þar með nokkrum hléum til vorsins 2017. Hann sat í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða frá stofnun þeirra árið 1998 til vorsins 2017, þar af sem formaður samtakanna á miklum umbrotatímum í íslensku þjóðfélagi á árabilinu 2006-2012.

Erla ráðin fjármálastjóri á rekstrarsviði SA
Erla Björk Guðmundsdóttir hefur verið ráðin sem fjármálastjóri á rekstrarsviði SA. Erla Björk hefur starfað hjá rekstrarfélagi húss atvinnulífsins frá 2015.

Hún starfaði frá árinu 2013 til 2015 hjá Orku energy services sem skrifstofustjóri. Frá 2003 til 2013 sem fjármálastjóri/skrifstofustjóri í hótel og veitingageiranum.