Ný úttekt aðila vinnumarkaðarins á efnahagsumhverfi og launaþróun
Heildarsamtök vinnumarkaðarins kynntu í dag nýja úttekt á efnahagsumhverfi Íslands og launaþróun í aðdraganda kjarasamninga. Í henni kemur fram að sameiginleg sýn samningsaðila í atvinnu- og efnahagsmálum á svigrúm til launabreytinga auðveldi gerð kjarasamninga. Samkeppnishæft atvinnulíf sé úrslitaatriði um efnahagslegan vöxt og viðgang lítils og opins hagkerfis eins og hins íslenska.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að hér á landi ríki almennur óstöðugleiki, fallvölt króna og mikil verðbólga sem sé ógn við lífskjör almennings og rekstrargrundvöll fyrirtækja. Kjarasamningar séu í senn mikilvægur hluti lausnar á þessum vanda en óstöðugleikinn jafnframt ógn við gerð þeirra. Í niðurstöðum úttektarinnar segir að sameiginleg markmið aðila vinnumarkaðarins hljóti að vera bætt lífskjör sem hvíli á efnahagslegum stöðugleika, samkeppnishæfu atvinnulífi og fullri atvinnu.
Í skýrslunni eru dregnar upp ólíkar sviðsmyndir af mögulegri þróun á vinnumarkaði og farið yfir efnahagsspár. Sú leið sem Íslendingar þekkja vel er að hér verði áfram óstöðugleiki, verðbólga og vextir, sem eru margfalt hærri en í nágrannalöndunum. Það er fjarri því að vera eftirsóknarvert fyrir heimili og fyrirtæki landsins og ætti að forðast með því að taka réttar ákvarðanir í kjaraviðræðunum framundan.
Í úttektinni er dregin upp mynd af launaþróun á íslenskum vinnumarkaði á árunum 2006-2013. Grunnárið helgast af því að samræmd gögn Hagstofu Íslands fyrir almenna og opinbera vinnumarkaðinn ná aftur til þess árs. Um er að ræða nýjar upplýsingar sem ekki hafa birst áður. Laun og launaþróun eru greind eftir heildarsamtökum, þ.e. ASÍ, BHM, BSRB og KÍ, og viðsemjendum þeirra; SA, sveitarfélögum og ríki.
Í skýrslunni kemur fram að launafólk í aðildarfélögum ASÍ vegur 70% í launavísitölu Hagstofunnar. Vægi launafólks í heildarsamtökunum er þannig að ASÍ vegur 63%, BSRB 16%, BHM 12% og KÍ 9%.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að:
- Laun hafa hækkað að jafnaði um 52% á tímabilinu
nóvember 2006 til maí 2013. Kaupmáttur launa dróst hins vegar saman
um tæp 2%.
- Laun hækkuðu að jafnaði mest hjá félagsmönnum
aðildarfélaga ASÍ, einkum vegna áherslna á krónutöluhækkanir í
kjarasamningum.
- Áherslur á lægstu laun hafa leitt til þess að launabil
hafa þjappast mikið saman á öllum samningssviðunum.
- Laun kvenna hafa hækkað umtalsvert meira en karla á
tímabilinu.
- Laun stjórnenda hafa hækkað minnst en laun verkafólks mest.
Úttektina í heild má nálgast hér að neðan.
Smelltu hér til að sækja skýrsluna
Útgefandi skýrslunnar er Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. Að nefndinni standa fern heildarsamtök launafólks, þ.e. ASÍ, BSRB, BHM og KÍ og þrenn samtök vinnuveitenda, þ.e. SA, Samband ísl. sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Umfjöllun fjölmiðla:
Umfjöllun fréttastofu Stöðvar 2
Umfjöllun RÚV - Spegilsins - rætt við framkvæmdastjóra SA og forseta ASÍ
Umfjöllun RÚV: Hófstillar launahækkanir jákvæðar til lengri tíma