Ný skýrsla kjaratölfræðinefndar kynnt fyrr í dag
Fyrr í dag var kynnt vorskýrsla Kjaratölfræðinefndar, samstarfsvettvangs um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag. Í skýrslunni er fjallað um kjarasamningalotuna sem hófst árið 2019 og stendur enn, þróun efnahagsmála og launa.
Skýrslan og tölfræðigögn verða aðgengileg á vef Kjaratölfræðinefndar í dag og helstu fjölmiðlar streymdu frá fundinum. Það er von nefndarinnar að sá grunnur upplýsinga og tölfræðigagna sem settur er fram í skýrslunni nýtist hagaðilum vel.
Edda Rós Karlsdóttir, formaður nefndarinnar, kynnti skýrsluna og gerði grein fyrir helstu atriðum hennar og niðurstöðum. Meðal nýjunga í skýrslunni er samanburður á launaþróun karla og kvenna, og á launaþróun innflytjenda og annarra. Tekið var við fyrirspurnum á ktn@ktn.is meðan á fundinum stóð. Fundarstjórn var í höndum Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara.
Í nefndinni sitja fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Hagstofu Íslands. Vorskýrslan er önnur skýrsla nefndarinnar, en gert er ráð fyrir að nefndin gefi framvegis út tvær á ári – að vori og hausti.