Ný samningalota hafin

Segja má að ný samningalota sé hafin á vinnumarkaðnum. Í framhaldi af ákvörðunum SA og ASÍ um að framlengja gildandi kjarasamninga til loka nóvember hafa Samtök atvinnulífsins sett fram grunnhugmyndir um atvinnustefnu til næstu framtíðar með yfirskriftinni Fleiri störf - betri störf. Þessar hugmyndir hafa verið kynntar og ræddar á fundum víðs vegar um landið. Ennfremur hafa helstu aðilar vinnumarkaðarins, bæði á almenna markaðnum og opinbera markaðnum, rætt um hvernig bæta megi vinnubrögð við gerð kjarasamninga og stigið fyrstu skrefin í þeim efnum.

Íslenskt atvinnulíf er almennt vel í stakk búið til þess að ná góðum árangri á næstu árum. Samtök atvinnulífsins hafa leitað til fjölmargra stjórnenda í stórum sem smáum fyrirtækjum í öllum greinum atvinnulífsins og farið yfir stöðuna og möguleikana með þeim. Í atvinnulífinu er vilji, geta og kraftur til að skila góðu starfi og sækja fram. Stóra spurningin er hvort tekst að virkja alla þá góðu eiginleika sem búa í fyrirtækjunum til framfara fyrir land og þjóð.

Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á fimm grunnþætti í atvinnustefnu sem ráða mestu um hvort ásættanlegur árangur næst á næstu árum. Stöðugleiki í efnahagsmálum og stjórnmálum er forsenda þess að atvinnulífið nái árangri. Það er óviðunandi að samfélagið þurfi að búa við umtalsvert meiri verðbólgu en nágrannaþjóðirnar. Það verður líka að vera traust á milli aðila vinnumarkaðar og ríkisstjórnar hverju sinni.

Fjárfestingar í atvinnulífinu verða að vaxa og þyrftu að aukast árlega um a.m.k. 50 milljarða króna til að halda í horfinu og enn meira til að tryggja fleiri og betri störf til lengri tíma.

Skattana þarf að laga. Fjölmargar breytingar á skattkerfinu síðustu ár hafa verið fremur verið gerðar á hugmyndafræðilegum forsendum en til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Breytingarnar hafa beinlínis heft árangur fyrirtækjanna á ýmsum sviðum auk þess að skapa vantraust á milli atvinnulífs og stjórnvalda.

Menntakerfið hefur lykilþýðingu fyrir atvinnulífið. Fyrirtæki sem stefna á að vera í fremstu röð þurfa starfsfólk sem býr yfir viðeigandi menntun og þekkingu.Skýrar vísbendingar eru um að mikil spurn atvinnulífsins eftir tæknimenntuðu starfsfólki sé ekki svarað með nægilegu framboði þess úr háskólunum og við því þarf að bregðast. Vinnustaðirnir sjálfir verða allaf mikilvægustu menntastofnanirnar en skólarnir þurfa að skila fólki út í atvinnulífið með verðmætri grunnþekkingu og mismunandi sérþekkingu.

Efling samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs er sífellt viðfangsefni sem snýr að mörgum atriðum. Markaðir fyrir vörur og þjónustu þurfa að virka vel og vera opnir þannig að öflug samkeppni ríki á öllum sviðum. Eftirlitsiðnaðurinn þarf að vera í samræmi við eðlilegan tilgang og ekki skapa óþarfa kostnað fyrir atvinnulífið.

Samtök atvinnulífsins vilja leita víðtækrar samstöðu á vinnumarkaðnum og við nýja ríkisstjórn um að skapa forsendur fyrir launahækkanir á grundvelli stöðugleika. Vinna aðila vinnumarkaðarins er þegar hafin á vettvangi ríkissáttasemjara. Fyrsta skrefið er að leita fyrirmynda frá nágrönnum okkar á Norðurlöndunum um aðferðafræði við samningsgerð, hvernig tekst að gera kjarasamninga sem til lengri tíma geta skilað betri lífskjörum samfara lágri verðbólgu.

Næsta skref er að láta reyna á hvort stærstu heildarsamtök á vinnumarkaði geti markað sameiginlega sýn á hvert svigrúm samfélagsins er til hækkunar launakostnaðar og betri lífskjara á grunni stöðugleika á næstu árum. Best væri að meginútlínur gætu legið fyrir í byrjun sumars þannig að einstakir samningsaðilar gætu tekið afstöðu til vel skilgreindra kosta þegar samningavinnan fer á fullt skrið eftir sumarfrí.

Samstaða á vinnumarkaðnum og samstaða milli vinnumarkaðarins og stjórnvalda um meginþætti atvinnustefnu og launaþróunar á grundvelli stöðugleika mynda tvær grunnstoðir þess sem Samtök atvinnulífsins vilja kalla samstöðuleið.

Meginmarkmiðið er að skapa fleiri störf og betri störf til þess að lífskjör á Íslandi verði í fremstu röð. Íslenskt atvinnulíf er tækið sem getur skilað þeim árangri.

Nýgerður stofnanasamningur hjúkrunarfræðinga og Landspítalans, sem gerður er með aðild ríkisstjórnar í aðdraganda Alþingiskosninga, vekur upp gamalkunnugar minningar frá níunda áratug síðustu aldar. Árið 1985 samdi BSRB við fjármálaráðherra um 3% aukalega launahækkun á miðju samningstímabili til samræmis við úrskurð kjaradóms um laun félagsmanna BHM og skömmu síðar var samið um sambærilega hækkun á öllum almenna markaðinum. Í kjölfarið var gengið fellt.

Viðbrögð annarra hópa starfsmanna innan og utan spítalans við stofnanasamningnum eru fyrirsjáanleg. Sambærilegra hækkana er krafist og ferlið sem farið er af stað mun skila aukinni verðbólgu, hærri vöxtum, lægra gengi og minni atvinnu. Lífskjör allra verða lakari þegar upp er staðið.

Ríkisstjórnin hefur ekki enn skýrt út hvernig fjármagna á launahækkanir hjúkrunarfræðinga eða hvort og hvernig þær eiga að hafa áhrif á laun annarra ríkisstarfsmanna eða starfsfólks á almennum vinnumarkaði. Í meginatriðum standa stjórnvöld frammi fyrir tveimur kostum. Sá fyrri er að takmarka launahækkunina við hjúkrunarfræðinga eina. Þá verða þau að lýsa yfir því að launahækkunin sé fyrirframgreiðsla upp í næstu kjarasamninga.

Hinn kosturinn er að láta reka á reiðanum og hrekjast í gerð fjölda sambærilegra stofnanasamninga. Í framhaldinu verða launahækkanir í þessum samningum grunnpunktur í kröfugerð opinberra starfsmanna og væntanlega allrar verkalýðshreyfingarinnar næsta haust. Ríkisstjórnin ber því mikla ábyrgð á þróun mála á vinnumarkaði á næstunni.

Vilhjálmur Egilsson.

Af vettvangi í febrúar 2013