Ný reglugerð um öryggis- og heilbrigðisstarf á vinnustöðum

Undanfarna rúma 20 mánuði hefur verið unnið að því á vegum Vinnueftirlits ríkisins að semja ný drög að reglugerð um öryggis- og heilbrigðisstarf á vinnustöðum. Reglugerð þessi sem sett verður samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum á að koma í stað reglna nr. 77/1982 um sama efni. Einnig er nú tekið mið af þeim breytingum sem urðu á lögunum með lögum nr. 68/2003 þar sem atvinnurekendur eru gerðir ábyrgir fyrir því að gerð sé skrifleg áætlun um heilbrigði og öryggi á vinnustað ásamt mati á áhættu, áætlun um heilsuvernd og að þetta sé gert í samráði við starfsmenn. Reglugerðinni er ætlað að ná til allra vinnustaða stórra og smárra.

Markmið reglugerðarinnar  er eins og í drögunum segir "að koma á kerfisbundnu heilbrigðis- og öryggisstarfi innan vinnustaða í þeim tilgangi að:

a) stuðla að því að starfsmenn séu verndaðir gegn hvers konar heilsuvá eða heilsutjóni sem stafa kann af vinnu þeirra eða vinnuskilyrðum,

b) stuðla að því að vinnu sé hagað þannig að starfsmenn fái verkefni við hæfi og stuðla að andlegri og líkamlegri aðlögun þeirra að starfsumhverfinu,

b) draga úr fjarvistum frá vinnu vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi og viðhalda heilsu starfsmanna á vinnustað,

c) stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna."

Fjallað er um öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði og starf öryggisnefnda í fyrirtækjum, um samstarf atvinnurekenda og starfsmanna og fræðslu og þjálfun. Ákvæði eru um áætlun um öryggi og heilbrigði, áhættumat, áætlun um forvarnir og framkvæmd og heilsufarsskoðanir. Einnig er fjallað um viðbrögð komi upp bráð hætta á vinnustað. Ætlað er að reglugerðinni fylgi viðauki þar sem fram koma almenn viðmið um forvarnir.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér fyrirliggjandi drög geta haft samband við Pétur Reimarsson eða Jón Rúnar Pálsson hjá SA. Einnig gefst tækifæri til að koma á framfæri ábendingum eða athugasemdum um það sem betur má fara.