Ný nálgun í rekstri grunnskólans
Samtök skattgreiðenda efna til ráðstefnu um nýja nálgun og hugsun í rekstri grunnskólans föstudaginn 23. nóvember. Rástefnan fer fram í HR kl. 14-17 og er allt áhugafólk um grunnskóla velkomið. Kostnaður við grunnskólakerfið er óvíða meiri en á Íslandi samkvæmt nýlegri skýrslu frá OECD. Á ráðstefnunni verður leitað svara við því hvort önnur nálgun við rekstur grunnskólans en tíðkast í dag geti verið skilvirkari og skilað sambærilegum eða betri árangri í kennslu? Reynsla Svía af sjálfstætt starfandi skólum og ávísun á menntun verður skoðuð og rætt hvort hægt sé að læra af reynslu þeirra.
Ráðstefnan fer fram í stofu V102. Fundarstjóri er Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur.
Í umfjöllun á vef Skattgreiðanda er m.a. fjallað um sjálfstætt starfandi skóla og ávísanakerfið í Svíþjóð.
"Fyrir 20 árum var svokallað ávísanakerfi tekið upp í Svíþjóð, þar sem kostnaðurinn við skólagönguna fylgir barninu, ekki tilteknum skóla. Foreldrum er heimilt að velja grunnskóla fyrir börn sín og greiðslan fer til þess skóla sem valinn er. Skólarnir eru mismunandi og ýmist reknir af sveitarfélögum, sjálfeignarstofnunum eða fyrirtækjum. Tryggir samkeppni betri skilvirkni og meiri framþróun í skólastarfi nemendum til heilla?
Á Íslandi eru reknir nokkrir sjálfstætt starfandi skólar, en innan við 1% nemenda grunnskólans sækja slíka skóla. Þessum skólum er í flestum tilvikum ekki búið sama umhverfi og skólum sem sveitarfélögin reka, en með undantekningum þó. Ráðstefnan fjallar einnig um stöðu þeirra í dag."
Dagskrá ráðstefnunnar:
14:00 Setningarávarp:
Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda
14:10 Innleiðing ávísanakerfisins í Svíþjóð 1992. Mælanlegur árangur eftir 20 ár?
Kunskapsskolan, kennslufyrirkomulag skólans og árangur.
Odd Eiken, aðstoðarforstjóri Kunskapsskolan sem rekur 34 grunnskóla í Svíþjóð og ráðuneytisstjóri í menntmálaráðuneyti Svíþjóðar 1991 - 1994.
15: 00 Fyrirspurnir (á ensku)
15:15 Stutt hlé
15:30 Rekstrarumhverfi sjálfstætt starfandi skóla
Sölvi Sveinsson, skólastjóri Landakotsskóla
15:45 Frjálst val um skóla - gildi þess og áhrif
Margrét Björk Svavarsdóttir, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar
16:00 Almennar fyrirspurnir og umræður
16:30 Málþingi lýkur
Málþingið er öllum opið meðan húsrúm leyfir.
Ráðstefnugestum og öðru áhugafólki býðst að fá sendar greinar sem Samtök skattgreiðenda hafa látið þýða úr greinasafninu The Profit Motive in Eduction: The Ongoing Revolution. Greinarar eru m.a. eftir frumkvöðla í rekstri sjálfstætt starfandi skóla í Svíþjóð. Sendið okkur ósk um gögnin á uppl@skattgreidendur.is.