Ný könnun: Telja kórónukreppuna vara í ár og þúsundir uppsagna framundan

Kórónukreppan lækkaði tekjur 70 prósent fyrirtækja í íslensku atvinnulífi í apríl 2020, miðað við sama mánuð í fyrra. Þetta er meðal niðurstaðna könnunar sem Maskína gerði fyrir Samtök atvinnulífsins meðal forsvarsmanna aðildarfyrirtækja sinna. Tekjur fjórðungs fyrirtækja minnkuðu um meira en 75 prósent í apríl og að auki var yfir helmings samdráttur hjá tíunda hverju.

Fjögur af hverjum fimm fyrirtækjum í ferðaþjónustu og fimmta hvert í verslun og þjónustu urðu fyrir meira en 75 prósent tekjufalli í apríl.

Tekjufall hjá fjórum af hverjum fimm fyrirtækjum á öðrum ársfjórðungi

Tæplega 80 prósent forsvarsmanna fyrirtækja telja að tekjur minnki milli annars fjórðungs 2020 og þess sama 2019. Fimmtungur þeirra áætlar að tekjur minnki um meira en 75 prósent á þessum tíma.

Allir forsvarsmenna fyrirtækja í ferðaþjónustu gera ráð fyrir minnkuðum tekjum og fjórir af hverjum fimm búast við meira en 75 prósent tekjufalli í sínum fyrirtækjum. Í öðrum greinum búast þrír af hverjum fjórum við samdrætti tekna.

Þrjú af hverjum fjórum fyrirtækjum grípa til aðgerða

Þrjú af hverjum fjórum fyrirtækjum hafa gripið til aðgerða, eða munu gera það, til að mæta tekjumissi vegna kreppunnar. Algengast er að lækka starfshlutfall starfsmanna og hefur það verið gert í þremur af hverjum fjórum þessara fyrirtækja. Jafn mörg fyrirtæki drógu úr öðrum rekstrarkostnaði en launakostnaði, um helmingur stytti afgreiðslu- eða þjónustutíma og þriðjungur skerti þjónustu eða greip til uppsagna.

Fjórðungur fyrirtækja hefur sagt upp 6 þúsund starfsmönnum

Fjórðungur fyrirtækja hefur sagt upp starfsfólki og hefur helmingur fyrirtækja í ferðaþjónustu gripið til þeirra. Uppsagnir eru einnig víðtækar í verslun og þjónustu þar sem fimmtungur fyrirtækja hefur sagt upp starfsfólki.

Rúmlega 40 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum sem svöruðu könnuninni. Uppsagnir náðu til rúmlega 3 prósent starfsmanna þeirra sem svarar til 5.600 uppsagna í viðskiptahagkerfinu í heild.

Áætla 5-6 þúsund uppsagnir til viðbótar

Rúmlega fimmtungur forsvarsmanna fyrirtækja áformar að frekari uppsagnir starfsfólks á næstunni. Ætla má að fyrirhugaðar uppsagnir muni ná til 3,2 prósent starfsmanna, eða um 5.500, og eru langflestar í fyrirtækjum tengdum ferðaþjónustu.

Búast að jafnaði við að kreppan standi í tólf mánuði

Þrjátíu prósent forsvarsmanna telja að kórónukreppan standi lengur en eitt ár og fjórðungur að hún standi í allt að eitt ár. Einungis einn af hverjum fimm telja að kreppan gangi yfir á skemur en fjórum mánuðum. Að jafnaði er búist við að kreppan standi yfir í tólf mánuði.

Mat á aðgerðarpökkum ríkisstjórnarinnar

Forsvarsmenn fyrirtækjanna voru spurðir um hvort aðgerðapakkar stjórnvalda, sem kynntir voru með mánaðar millibili, kæmu fyrirtækjum þeirra að gagni til að bregðast við kórónukreppunni. Svörin eru eðlilega mjög mismunandi, m.a. vegna þess að sumar aðgerðir snerta ekki viðkomandi fyrirtæki eða bíða framkvæmdar, en þau gefa sterkar vísbendingar um jákvæð áhrif aðgerðanna. 

Fyrsti aðgerðapakkinn, sem kynntur var 21. mars, fól í sér margvíslegar aðgerðir til skamms og lengri tíma og telja flestir forsvarsmenn að hlutastarfaleiðin og laun í sóttkví hafi gagnast mest enda tóku þær aðgerðir gildi strax.

Skiptar skoðanir voru um einstakar aðgerðir í pakkanum sem kynntur var 21. apríl. Þær aðgerðir sem flestir forsvarsmenn töldu gagnast mikið eða nokkuð voru jöfnun tekjuskattsgreiðslna milli ára og frekari sókn til nýsköpunar, en tæplega helmingur þátttakenda töldu svo vera.

Um könnunina

Þetta er önnur könnunin sem SA láta Maskínu gera til að fá mat á áhrifum kórónukreppunnar á fyrirtæki og starfsfólk þeirra. Hún fór fram 22. apríl til 4. maí en sú fyrri var gerð í lok mars. Spurningar voru lagðar fyrir 1.800 forsvarsmenn fyrirtækja sem eiga aðild að SA og svöruðu 686, sem gerir 37 prósent svarhlutfall. Starfsmenn fyrirtækjanna sem tóku þátt eru um 40 þúsund sem svarar til tæplega 30 prósent starfsmanna í viðskiptahagkerfinu.