Ný fjármálaáætlun: Bættar efnahagshorfur en áskoranir framundan
Ríkisstjórnin birti í gær fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026 sem byggir á nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar. Ný ríkisstjórn sem taka mun sæti í haust verður ekki bundin af áætluninni en hún dregur engu að síður upp mynd af líklegri þróun fjármála hins opinbera miðað við nýjustu þjóðhagsspá sem liggur til grundvallar. Spáin gefur þannig vísbendingar um þróun á tekju- og útgjaldahlið hins opinbera svo unnt sé að haga stefnu, til að mynda í lánamálum, til samræmis við horfur í efnahagslífinu.
Í stuttu máli endurspeglar nýbirt fjármálaáætlun bættar efnahagshorfur og betri afkomu ríkissjóðs. Horfur um þrálátt atvinnuleysi eru hins vegar áhyggjuefni og ljóst að forgangsverkefni næstu ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðar verður að skapa skilyrði svo unnt sé að vinna hratt á atvinnuleysinu.
Þó að tíðindi gærdagsins hafi á heildina litið verið jákvæð er ljóst að fjölmargar áskoranir eru enn fram undan. Aðgerðir yfirvalda hafa mildað höggið til skamms tíma, en þær birtast í miklum hallarekstri og aukinni skuldsetningu og hafa þannig frestað vandanum. Ef takast á að stöðva skuldsetninguna, þannig að hún haldist innan þeirra marka sem sett voru í lögum um opinber fjármál, mun þurfa að grípa til ráðstafana nema hagvöxtur reynist kröftugri en vonir standa til.
Sjást þar svart á hvítu þau áhrif sem umsvif og framleiðslugeta hagkerfisins hafa á opinber fjármál og þar af leiðandi gæði þeirra velferðarkerfa sem við reiðum okkur á. Á þessum vanda mun næsta ríkisstjórn þurfa að taka með trúverðugum áætlunum og stefnu sem er til þess fallin að skapa störf – hjá fyrirtækjum í atvinnulífinu, ekki í opinbera geiranum.
Meiri hagvöxtur en þrálátt atvinnuleysi
Hagstofan gerir nú ráð fyrir 2,6% hagvexti í ár og 4,8% hagvexti á næsta ári. Jafnframt er nú spáð kröftugri hagvexti á seinni hluta tímabilsins sem minnkar þörf á aðhaldsaðgerðum af hálfu hins opinbera. Spáin málar því eilítið bjartari mynd en birtist í seinustu spá Hagstofunnar í október síðastliðnum enda hafa rauntölur sem birst hafa síðan þá komið þægilega á óvart, ekki síst hvað varðar einkaneyslu og fjárfestingu eins og Samtök atvinnulífsins hafa fjallað um.
Samdráttur landsframleiðslu á seinasta ári reyndist vera 6,6% samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar en flestar ef ekki allar spár greiningaraðila höfðu gert ráð fyrir lakari niðurstöðu. Bættar horfur leiða til 134 milljarða króna betri afkomu ríkissjóðs á tímabilinu samkvæmt áætluninni og þá væntanlega minni skuldsetningu ríkissjóðs um leið.
Þrátt fyrir horfur um aukinn hagvöxt er gert ráð fyrir þrálátu atvinnuleysi á spátímabilinu. Atvinnuleysi verður nær 5% á árinu 2024 skv. spánni, sem er umfram langtímameðaltal atvinnuleysis hér á landi. Þetta fyrirséða atvinnuleysi verður stór áskorun fyrir yfirvöld, og ekki síður aðila vinnumarkaðarins, á komandi árum. Þrálátt atvinnuleysi hefur ekki einungis í för með sér aukinn kostnað fyrir sameiginlega sjóði heldur hefur það neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu þeirra sem fyrir því verða.
Líkur eru á að grynnka muni verulega á atvinnuleysinu þegar sóttvarnaraðgerðum sleppir. Til stuðnings væri ráðlegt að beita úrræðum til að auka virkni á vinnumarkaði svo sem endurbættri útgáfu ráðningarstyrks sem kynnt var á dögunum. Umfram allt er þó mikilvægast að hérlendis séu ávallt hagfelld og samkeppnishæf skilyrði til fyrirtækjarekstrar, svo sem hófleg skattheimta og einfalt regluverk eins og Samtök atvinnulífsins þreytast ekki á að benda á.
Hafa efnahagsaðgerðir skilað árangri?
Frá því faraldurinn hófst fyrir rúmlega ári hafa yfirvöld ráðist í fjölþættar aðgerðir til stuðnings heimilum og fyrirtækjum, með tilheyrandi hallarekstri og skuldsetningu ríkissjóðs. Að mati fjármálaráðuneytisins hafa sértækar aðgerðir yfirvalda skilað sér í aukinni landsframleiðslu fyrir um 100 milljarða á árunum 2020-2021 og þannig mildað efnahagsáfallið. Þessar sértæku aðgerðir, sem telja um helming viðbragðs yfirvalda á þessum árum, fela ekki allar í sér bein fjárútlát af hálfu ríkissjóðs þar sem einnig er um úrræði á borð við frestun skattgreiðslna og ríkistryggð lán að ræða.
Samkvæmt könnunum sem Samtök atvinnulífsins hafa framkvæmt fyrir félagsmenn ríkir almenn ánægja með efnahagsaðgerðir yfirvalda þó deila megi um gagnsemi mismunandi aðgerða. Í mars 2021 töldu til að mynda tæplega 67% stjórnenda fyrirtækja í ferðaþjónustu að aðgerðir stjórnvalda sem kynntar voru í mars í fyrra hefðu verið gagnlegar á meðan tæplega helmingur forsvarsmanna allra fyrirtækja telur aðgerðirnar hafa komið að miklu eða einhverju gagni.
Þær aðgerðir sem flestir töldu að hefðu gagnast voru; hlutastarfaleiðin, frestun skattgreiðslna, laun í sóttkví, útvíkkun á „allir vinna” og frekari sókn til nýsköpunar, en misjafnt er eftir atvinnugreinum og öðrum aðstæðum hvaða aðgerðir nýttust fyrirtækjunum helst. Atvinnurekendur eru jákvæðir í garð efnahagsaðgerða stjórnvalda þrátt fyrir að faraldurinn hafi reynst langvinnari en vonir stóðu til. Hefur sú afstaða lítið breyst síðastliðna sex mánuði.
Fjölmargar áskoranir enn til staðar
Þó að byrðum áfallsins hafi verið dreift yfir tíma er ærið verk enn fyrir höndum. Þúsundir starfa hafa glatast. Ekki er gert ráð fyrir jákvæðum frumjöfnuði ríkissjóðs fyrr en á árinu 2025 og þá einungis ef gripið verður til sérstakra ráðstafana á tekju- eða útgjaldahlið. Hættan er sú að taka muni langan tíma að draga úr þeirri útgjaldaaukningu sem hefur átt sér stað vegna kreppunnar.
Sagan sýnir að aðhald í opinberum fjármálum reynist oft erfitt á uppgangstímum og verður því fróðlegt að sjá hverjar áherslur næstu ríkisstjórnar verða þegar kemur að fjármálastefnunni. Ef framtíðin ber dræman hagvöxt í skauti sér verður erfitt að standa undir útgjöldunum án viðvarandi hallarekstrar og tilheyrandi skuldasöfnunar. Þannig niðurstaða hefði vissulega mildað högg kórónukreppunnar, en gæti einnig ógnað lífsgæðum komandi kynslóða. Slíka arfleifð ber að varast.