Norrænt atvinnulíf styður metnaðarfull markmið um kolefnishlutleysi

Formenn og framkvæmdastjórar samtaka atvinnulífs og iðnaðar á Norðurlöndum ræddu m.a. um loftslagsmál á fundi í Reykjavík þann 30. ágúst. Á fundinum kom skýrt fram að fyrirtæki á Norðurlöndum geti gegnt lykilhlutverki við að hanna og þróa lausnir sem nýtist við að ná tökum á loftslagbreytingum á komandi misserum.

Til að markmið Parísarsamkomulagsins náist þarf að efla nýsköpun og styrkja starfsumhverfi fyrirtækja þannig að hægt sé að hraða innleiðingu grænna lausna. Þar skiptir gott samstarf atvinnulífs og stjórnvalda meginmáli því tíminn til að bregðast við er takmarkaður.

Samtökin munu leggja sitt af mörkum til að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna náist fyrir 2030 og setja málefni umhverfisins í forgrunn.

Í maí síðastliðnum sendi Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem er jafnframt formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál, öllum samtökum atvinnulífs á Norðurlöndum erindi þar sem fjallað var um s.k. Helsinki yfirlýsingu Norrænu ríkjanna um kolefnishlutleysi sem byggi á getu ríkjanna til að tengja efnahagsvöxt og velferð við metnaðarfull markmið í umhverfismálum og þróun að sjálfbæru samfélagi.

Norrænu ráðherrarnir viðurkenna mikilvægi þess að atvinnulíf á Norðurlöndum geti tekið forystu við að umbreyta efnahagslífinu á heimsvísu. Kolefnishlutleysi verði einungis náð með nánu samstarfi stjórnvalda og einkageirans. Óskað var viðbragða samtakanna við Helsinki yfirlýsingunni.

Í svarbréfi samtakanna er Helsinki yfirlýsingunni og metnaðarfullum markmiðum hennar fagnað. Samtökin lýsa yfir fullum stuðningi við markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi. Sérstaklega er jákvætt að viðurkennt sé að atvinnulífið leiki lykilhlutverk til að takmarka loftslagsbreytingar og áhrif þeirra. Samtökin séu einbeitt í að veita forystu á þessu sviði.

Undir þetta rita framkvæmdastjórar samtakanna sem eru Samtök atvinnulífsins, Confederation of Swedish Enterprise, Confederation of Finnish Industries, Confederation of Danish Industries og Confederation of Norwegian Industries.

Í yfirlýsingu samtakanna um lykilhlutverk norræns atvinnulífs við lausn loftslagsvárinnar (e. Nordic Business is an Essential Part of The Climate Solution) segir m.a.:

  • Norrænt atvinnulíf vill vera hluti af lausninni og mun leggja sitt af mörkum.
  • Norrænt atvinnulíf styður markmið um kolefnishlutleysi. Alþjóðlegar aðgerðir verða að haldast í hendur við markmið einstakra svæða og ríkja. Mikilvægt er að tengja samkeppnishæfni fyrirtækja og nýsköpun við lausnir í loftslagsmálum og aukna velferð.
  • Samvinna er hornsteinn til að takast á við loftlagsvána. Stefna þarf að minni losun í öllum geirum. Loftslagsvænar lausnir í orkuvinnslu, orkunýtingu og aukin rafvæðing eru mikilvægar.
  • Atvinnulífið mun skapa lausnir. Á öllum sviðum atvinnulífsins eru norræn fyrirtæki í forystu í loftslagsmálum. Fjölmörg hafa sett sér markmið hvert á sínu sviði og innleitt loftslagsmál í stefnumörkun sína. Norrænt atvinnulíf ætlar sér að vera hluti af lausninni og þar skipta tækniþróun, nýsköpun, umhverfisvænar aðferðir og hönnun ásamt markaðssókn miklu máli.
  • Norrænt atvinnulíf vill starfa með stjórnvöldum sem þurfa að skapa hagfellt rekstrarumhverfi.
  • Samkeppnishæfni er lykill að umbreytingu atvinnulífs og fjárfestingum og er órjúfanlegur hluti metnaðarfullra loftslagsmarkmiða. Við síbreytilega samkeppni og markaðsaðstæður er mikilvægt að rekstarumhverfið sé gott á alþjóðlegan mælikvarða.
  • Jafnvægi þarf að ríkja í stefnumótun. Aðferðir við að verðleggja losun kolefnis skipta miklu máli. Evrópska viðskiptakerfið er miðpunktur loftslagsstefnunnar. Til lengri tíma verður að myndast alþjóðlegt verð á kolefnislosun og markaður sem tengist Parísarsamkomulaginu. Lög og reglur verða að vera sveigjanlegar og taka mið af því að aðstæður eru misjafnar eftir greinum.
  • Norrænt atvinnulíf er ákveðið að leggja sitt af mörkum.