Norræn velferð
Á undanförnum 15 árum hafa laun á Íslandi hækkað um 7% á ári að jafnaði. Verðmætasköpun á hverja vinnustund, hefur á sama tíma vaxið að jafnaði um 2%. Framleiðniaukning, aukin skilvirkni og bætt frammistaða, er forsenda aukins kaupmáttar launa og betri lífskjara. Launahækkanir umfram framleiðniaukningu valda hins vegar óhjákvæmilega verðbólgu. Það kemur því ekki á óvart að verðbólga er langt umfram markmið stjórnvalda og Seðlabankans þegar laun hækka margfalt meira en framleiðnin ár eftir ár.
Á síðasta áratug, frá 2003-2012, hækkuðu laun að meðaltali um 81% á Íslandi en vegna mikillar verðbólgu jókst kaupmáttur launa aðeins um 3,5% eða 0,4% árlega. Í Danmörku og Svíþjóð hækkuðu laun um 27-28% og kaupmáttur launa um 8-11% eða um 1% árlega að jafnaði. Launahækkanir í nágrannaríkjunum hafa verið hóflegar og í samræmi við framleiðniþróun og stöðugt verðlag þannig að kaupmáttur hefur vaxið jafnt og þétt.
Fyrir nokkrum áratugum voru launahækkanir á Norðurlöndunum mun meiri en undanfarið en uppskeran var rýr og kaupmáttur rýrnaði. Af þessu voru dregnar þær ályktanir að vænlegri leið fælist í hóflegum launahækkunum sem tækju mið af samkeppnisstöðu atvinnulífsins, stuðluðu að verðstöðugleika og ýttu undir hagvöxt og fjölgun starfa.
Það er því full ástæða fyrir Íslendinga að læra af reynslu Norðurlandanna af kjarasamningum og aðferðum sem þar hefur verið beitt undanfarin ár. Íslendingar leita oft fyrirmynda á Norðurlöndum um velferðarmál en full ástæða er fyrir aðila vinnumarkaðarins að leita þar fyrirmynda um viðmiðanir og vinnubrögð við gerð kjarasamninga.
Samkeppnisstaða útflutningsiðnaðar er grundvöllur kjarasamninga á Norðurlöndum. Samningsaðilar beggja vegna borðs eru sammála um að kostnaðarhækkanir megi ekki skerða samkeppnisstöðu útflutningsfyrirtækjanna því það fækki störfum og dragi úr útflutningi. Samkeppnisgreinarnar skapa því svigrúm til launahækkana á öllum vinnumarkaðnum. Kjarasamningar í öðrum atvinnugreinum, bæði á almenna og opinbera vinnumarkaðnum, fylgja síðan fordæmi samkeppnisgreinanna. Forsenda samstöðu um þetta fyrirkomulag er að þeir sem koma í kjölfarið krefjist ekki meiri launahækkana en felst í þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið. Mikill agi ríkir á vinnumarkaðnum, bæði meðal fyrirtækja og stéttarfélaga, og launaskrið er lítið jafnvel þótt þensla sé á vinnumarkaði og skortur á starfsfólki í tilteknum starfsstéttum.
Íslendingar ná ekki tökum á verðbólgunni nema væntingar til kjarasamninga verði raunsærri en verið hefur og að umsamdar launabreytingar verði í samræmi við verðlagsstöðugleika. Mikið launaskrið auk umsaminna launahækkana tefla markmiðum um verðstöðugleika í tvísýnu og því þarf agi fyrirtækjanna sjálfra að aukast við launaákvarðanir. Mikið launaskrið er ekki samrýmanlegt samstöðu um sameiginlega stefnu aðila vinnumarkaðarins í kjaramálum. Lítið launaskrið er mikilvæg forsenda þess að allur vinnumarkaðurinn gangi í takt.
Efnahagslegur stöðugleiki er forsenda öflugs atvinnulífs og betri lífskjara almennings.
Þorsteinn Víglundsson