Norðurvegur fari í umhverfismat
Kynntar hafa verið athuganir á gerð svokallaðs Norðurvegar. Veginum er ætlað að liggja frá Gullfossi um Kjöl milli Hofsjökuls og Langjökuls og tengjast hringveginum við Silfrastaði í Skagafirði. Þessar athuganir hafa verið gerðar af frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja sem stofnað hafa sérstakt félag til að hafa forystu um framkvæmdina. Æskilegt er að hafist verði handa við gerð umhverfismats þannig að í ljós komi hvort vegurinn muni skila jákvæðri niðurstöðu þegar litið er til áhrifa á samfélag, efnahag og umhverfi og um leið fyrir sjálfbæra þróun íslensks samfélags. Niðurstaða matsins verði svo látin ráða því hvort í framkvæmdina verði ráðist.
Mikil samgöngubót
Ekki þarf að lýsa í mörgum orðum þeirri samgöngubót sem í framkvæmdinni felst en leiðin milli Selfoss og Akureyrar mun styttast um 140 kílómetra. Vegalengd milli stórs hluta Norður- og Norðausturlands og Reykjavíkur mun styttast um tugi kílómetra. Álag á vegakerfið inn og út úr Reykjavík getur minnkað og dreifst þegar ekki þarf að aka til Borgarness frá Selfossi til að komast til Akureyrar eða til baka. Búsetuskilyrði á stórum svæðum munu batna frá því sem nú er og áhrif á byggðir og samfélag verða mun meiri en menn gera sér grein fyrir í fljótu bragði.
Umferðaröryggi mun aukast, slysum og óhöppun fækka, umferð flutningabíla sem nú veldur mörgum áhyggjum mun dreifast, flutningskostnaður mun lækka, eldsneytisnotkun minnka, ferðaþjónusta á Suðurlandi og Norðurlandi og á hálendinu getur styrkst og almenningur öðlast aukið aðgengi að hálendinu.
Umhverfisvernd verði höfð að leiðarljósi
Ferðaþjónustan hefur bent á að ætlunin sé að leggja veginn yfir ósnortið svæði og að vegurinn geti svipt hluta hálendisins sérkennum sínum og öræfastemmingu sem margir sækjast eftir. Helstu göngu- og reiðleiðir norðan Hofjökuls yrðu skornar í sundur. Eins er bent á að verið sé að vinna að endurbótum á Kjalvegi sem séu frekar með þarfir ferðamanna í huga. Með nýjum vegi megi auk þess búast við breytingu á þjónustu við ýmis svæði sem tengjast þjóðvegi 1.
Fyrirhugað vegstæði mun liggja um Guðlaugstungur. Þær voru friðlýstar með auglýsingu umhverfisráðherra í desember 2005 til að vernda víðfeðmt og gróskumikið votlendi og eitt stærsta rústasvæði landsins auk þess að vera mikilvægt varp- og beitiland heiðagæsar. Ekki hafa komið fram upplýsingar um hvernig vegurinn muni samrýmast friðlýsingarskilmálum svæðisins né þau áhrif sem hann geti haft á verndargildi svæðisins.
Norðurvegur ehf. hefur lýst yfir því að umhverfisvernd verði höfð að leiðarljósi við framkvæmdina og að lögð verði áhersla á að vernda gróður á svæðinu og breyta sem minnst framrás vatns. Gert er ráð fyrir að því sem næst öllu efni verði ekið í veginn og það tekið á völdum stöðum meðfram veginum. Frágangur verði þannig að sem minnst beri á jarðraski og náið samráð haft við landeigendur og yfirvöld.
Arðbær framkvæmd
Í gögnum Norðurvegar ehf. kemur fram að framkvæmdin er mjög arðbær og að hófleg gjaldtaka geti staðið undir fjárfestingunni og rekstri vegarins án þess að hafa veruleg áhrif á arðsemi hans. Mikilvægt er að allar upplýsingar liggi fyrir um framkvæmdina og að ákvörðun verði ekki tekin fyrr en fram hafi farið lögformlegt umhverfismat þar sem meðal annars verði kannaðir þeir kostir sem til greina koma til að draga úr hugsanlegum neikvæðum áhrifum á náttúru og útivist.
Gott er að muna að Kjölur var öldum saman fjölfarnasta leið milli Norður- og Suðurlands og mikilvæg flutningsleið fyrir vörur. Það lögmál að allar leiðir milli Suðurlands og Norðurlands skuli liggja um Borgarnes er síðari tíma uppfinning.
Sjá nánar:
Upplýsingar um Norðurveg á vef félagsins