Nokkuð jöfn launaþróun á vinnumarkaði 2006-2014

Heildarsamtökin á vinnumarkaðnum hafa gefið út nýja skýrslu um launaþróun undanfarinna átta ára og efnahagsforsendur kjarasamninga 2015. Niðurstöður sýna m.a. að ríkisstarfsmenn í stéttarfélögum innan ASÍ hafa hækkað mest í launum á árunum 2006-2014, þar á eftir framhaldsskóla- og grunnskólakennarar, en starfsmenn í aðildarfélögum BSRB hjá sveitarfélögum minnst. Upplýsingar um laun og launaþróun eru sóttar í gagnasafn Hagstofunnar en þær flokkaðar eftir heildarsamtökum launafólks og viðsemjenda þeirra.

Hækkanir hópanna eru nokkuð svipaðar í heild þegar litið er yfir tímabilið 2006-2014 en tímasetning þeirra mismunandi eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

undefined

Í öllum heildarsamtökum og samningssviðum hækkuðu laun kvenna meira en karla á tímabilinu og launadreifing varð jafnari. Laun skrifstofufólks og verkafólks hækkuðu mest en stjórnenda minnst.

Í efnahagskafla skýrslunnar er áhersla lögð á umfjöllun um þætti sem marka svigrúm til launabreytinga, einkum launahlutfall, framleiðni og raungengi. Launahlutfall er hvergi hærra en hér á landi þegar litið er til meðaltals síðustu ára en tímakaup tiltölulega lágt. Þetta kann að virðast mótsögn en skýrist af lítilli framleiðni á Íslandi. Raungengi er undir sögulegu meðaltali en staða þess ræðst af viðskiptajöfnuði og hækki það mun viðskiptaafgangur þjóðarbúsins hverfa.

Í skýrslunni kemur fram að staða þjóðarbúsins sé vænleg en viðkvæm og mikilvægt auka aga í hagstjórn við núverandi skilyrði. Raunsætt mat á aðstæðum og bætt vinnubrögð þurfi til að ná hagfelldri niðurstöðu í komandi kjarasamningum.

Tengt efni:

Í aðdraganda kjarasamninga 2015. Efnahagsumhverfi og launaþróun