Neysla og fjárfesting kröftugri en talið var

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar var hagvöxtur á árinu 2020 heldur meiri en spár hafa gert ráð fyrir, þökk sé kröftugri innlendri einkaneyslu og minni samdrætti í fjárfestingu en spáð var. Samdráttur einkaneyslu og fjárfestingar var mun meiri í kjölfar fjármálaáfallsins en að þessu sinni koma neikvæðu áhrif kreppunnar talsvert sterkar fram í gegnum utanríkisviðskipti sökum frosts í ferðaþjónustu.  

Samdrátturinn í landsframleiðslu nam 6,6% hérlendis í fyrra, sem mega teljast jákvæðar fréttir miðað við nýlega spá Seðlabankans um 7,7% samdrátt. Það er einnig athyglisvert í ljósi þess að hagvöxtur ársins 2019 var endurskoðaður talsvert upp á við, eða úr 1,9% í 2,6%. Samdráttur í landsframleiðslu á mann var þó sögulega mikill, 8,2%, sökum fólksfjölgunar sem nam 1,7% á seinasta ári.

Þróttur í innlenda hagkerfinu

Enn er talna um landsframleiðslu beðið víða í Evrópu en þar sem tölur hafa verið birtar má sjá að Ísland kemur ágætlega út hvað einkaneyslu varðar. Þar er einkum þrennt sem kemur upp í hugann til skýringar; 

  • Seðlabankinn hafði meira svigrúm til vaxtalækkana en flest önnur iðnríki. Verulegar vaxtalækkanir hafa leitt til endurfjármögnunar fasteignalána og þannig aukið ráðstöfunartekjur margra

  • Launahækkanir voru meiri hérlendis en í flestum öðrum ríkjum. Hækkanirnar voru einnig umfram verðlagshækkanir og hafa því leitt til kaupmáttaraukningar hjá þeim sem enn eru við störf

  • Í stað þeirra útgjalda sem hefðu átt sér stað meðal landans erlendis á árinu var meira um innlenda ferðamennsku og almenna innlenda neyslu en hefði að líkindum ella verið. Innflutt ferðaþjónusta (ferðalög Íslendinga erlendis) er óvíða meiri en hérlendis og hafði kyrrsetning landans því meira að segja hér en annars staðar

Leiða má að því líkur að sterkari innlend eftirspurn en vænst var dragi úr þörf á frekari vaxtalækkunum Seðlabankans.

Talsverður munur er á nýjustu spá Seðlabankans hvað varðar fjárfestingu, sem gerði ráð fyrir nær 12% samdrætti í fjárfestingu á árinu 2020, og tölum Hagstofunnar sem gefa til kynna að hann hafi verið nær 7%. Þrátt fyrir að hið opinbera hafi boðað fjárfestingarátak var samdrátturinn í opinberri fjárfestingu heldur meiri en áætlað var. Atvinnuvegafjárfesting og fjárfesting í íbúðarhúsnæði spyrntu aftur á móti sterkar við en gert hafði verið ráð fyrir. 

Ójafnvægi gæti myndast á íbúðamarkaði

Fjárfesting í íbúðarhúsnæði hélst fremur sterk aðallega vegna íbúða sem lögð var lokahönd á fremur en að mikil aukning hafi verið í fjölda íbúða á fyrri byggingarstigum. Spá Samtaka iðnaðarins frá því í september um fullbúnar íbúðir á þessu ári og því næsta styður við þá sýn að dregið gæti úr framboði nýrra íbúða á næstu misserum á meðan eftirspurn eftir íbúðahúsnæði helst sterk, ekki síst vegna þess lágvaxtaumhverfis sem nú ríkir. Þessi þróun gæti verið til þess fallin að valda frekari verðhækkunum á íbúðamarkaði en raunhækkanir á fasteignamarkaði hafa hingað til verið hóflegar.

Líkt og sjá má af verulega neikvæðu framlagi utanríkisviðskipta til hagvaxtar mun viðsnúningurinn í hagkerfinu velta að miklu leyti á endurræsingu ferðaþjónustu. Þó að ýmsar aðgerðir yfirvalda hafi viðhaldið tímabundið háu neyslustigi, sem stutt hefur við hagvöxt að undanförnu, er ljóst nú sem fyrr að þjóðarbúið á mikið undir því að vel takist til við opnun landamæra að nýju.