Náttúruverndaráætlanir fari í umhverfismat

Við undirbúning náttúruverndaráætlunar er mikilvægt að horfa á málin frá víðari sjónarhorni en gert hefur verið til þessa. Taka ætti tillit til áhrifa fyrirhugaðrar friðlýsingar á félagslega og efnahagslega þætti. Þetta kom fram í ávarpi Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA, á Umhverfisþingi sem hófst í morgun. Benti hann á að fleiri þurfi að koma að undirbúningi náttúruverndaráætlunar en vísindamenn og það hljóti að vera ástæða til að velta fyrir sér hvort náttúrverndaráætlun eigi ekki að fara í gegnum svipað ferli og t.d. skipulagsáætlanir stjórnvalda og samgönguáætlun þar sem ekki eru einungis skoðuð hin umhverfislegu áhrif heldur einnig aðrir mikilvægir þættir.

"Nýleg lög um umhverfismat áætlana koma upp í hugann í því sambandi en þar er gert ráð fyrir heildstæðu mati á áhrifum áætlana og formlegum fresti almennings og annarra til að gera athugasemdir. Þannig mat hlýtur einnig að fylgja tillögu að rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafls- og jarðvarmasvæði sem ætlunin er leggja fyrir Alþingi lok árs 2009, sagði Vilhjálmur.

Höfnin í Kópavogi friðuð?

Í ávarpi sínu sagði Vilhjálmur mikilvægt að í tengslum við náttúruverndaráætlun yrði hugað að tengslum við aðrar áætlanir og hvaða áhrifum þær geti orðið fyrir. "Náttúrverndaráætlun getur ekki staðið ein og sér án tengsla við landsskipulag, svæðisskipulag og aðrar áætlanir sem fyrir liggja. Það vakti til dæmis athygli mína að í síðustu náttúruverndaráætlun var gert ráð fyrir að friða allan Skerjafjörð vegna mikilvægis fyrir fugla. Undir þetta svæði fellur höfnin í Kópavogi og ýmsar landfyllingar sem unnið hefur verið að og auk þess sem hugsanlegt flugvallarstæði á Lönguskerjum er hluti svæðisins. Það hefði verið afar gagnlegt í þessu tilviki og reyndar öðrum að fjalla um áhrif friðlýsingar á nýtingu svæðisins til frambúðar. Með vinnubrögðum eins og þessum geta þeir sem vilja og hafa hug á nýtingu svæða séð hvaða skorður er verið að reisa og komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Það er engum til góðs að í gangi sé einhvers konar kapphlaup milli þeirra sem vilja vernda tiltekna hluta náttúrunnar um að friða sem fyrst og þeirra sem vinna að þróun samfélagsins út frá öðrum forsendum."

Ávarp Vilhjálms á Umhverfisþingi (PDF)