Nátttröll leitar tilgangs
Íbúðalánasjóður hefur nú riðið fram á völlinn með nýjar lausnir á vandamálum í húsnæðismálum. Þetta er sama stofnun og leiddi húsnæðisbólu í aðdraganda hrunsins með því að kynna 90% lán. Auk þess að bjóða upp á lán, í samkeppni við banka og lífeyrissjóði, er sjóðurinn með nokkurs konar greiningadeild. Maður bíður bara spenntur eftir Íbúðalánasjóðs greiðslukortunum eða sparibaukunum.
Eina sem getur auðveldað fólki að kaupa eða leigja er aukið framboð.
Nýjasta útspil Íbúðalánasjóðs er ný deild leigumarkaðsmála. Helsta verkefni deildarinnar er sagt vera að vinna að því að gera leigumarkaðinn að raunverulegum valkosti fyrir fólk. Ég skal einfalda þessari nýju deild lífið með því að segja þeim hver hin augljósa og einfalda lausn er: Eina sem getur auðveldað fólki að kaupa eða leigja er aukið framboð. Þar stendur fyrst og fremst á Reykjavíkurborg sem þarf að láta skipulagið virka betur svo fleiri lóðir undir íbúðarhúsnæði verði í boði og að uppbyggingin taki styttri tíma.
Leigufélögum hefur vaxið ásmegin síðustu árin og hafa sumir séð ástæðu til að agnúast út í þau. Staðreyndin er hins vegar að þau bæði auka framboðið á leiguíbúðum og auka fagmennsku á leigumarkaði. Viðhald og þjónusta við leigjendur eru betri og skattskil í betra lagi en hjá sumum einyrkjum sem voru áður allsráðandi á þessu markaði. Allt er þetta til hagsbóta fyrir leigjendur. Markaðurinn leysir vandann að svo miklu leyti sem hið opinbera stendur ekki í vegi fyrir því.
Vandséð er hver aðkoma Íbúðalánasjóðs á að vera að þessu. Ríkið þreytist aldrei við að reyna að hafa afskipti af því sem ætti að vera frjáls markaður, þótt slíkar tilraunir misheppnist oft. Vandamálið er að lausnir ríkisins á vandamálum skapa yfirleitt stærri vandamál en þeim er ætlað að leysa.
Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 22. febrúar 2018.