Námskeið Litla Íslands um vinnurétt
Námskeið um vinnurétt og kjarasamninga var haldið á vettvangi Litla Íslands síðastliðinn föstudag. Námskeiðið var vel sótt og auk þess fylgdist nokkur fjöldi með beinni útsendingu frá námskeiðinu á vef Litla Íslands. Um var að ræða opið námskeið þannig að á staðnum voru bæði fulltrúar frá aðildarfélögum SA og öðrum. Margir sýndu áhuga á að ganga í Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög að loknum fundinum.
Það er ljóst að mikil eftirspurn er eftir fræðslu um vinnurétt og starfsmannamál í fyrirtækjum og að mikilvægt er að sinna þessum þætti vel.
Kristín Þóra Harðardóttir, lögmaður á vinnumarkaðssviði SA, fjallaði um helstu ákvæði kjarasamninga og það helsta sem kemur upp í starfsmannamálum. Fjallað var m.a. um vinnutíma, uppsagnarfrest, veikindarétt, orlof og brotthlaup úr starfi.
Þátttakendur tóku virkan þátt í námskeiðinu, m.a. með ábendingum og spurningum sem reynt var að svara eftir bestu getu. Það er ljóst að mikil eftirspurn er eftir fræðslu um vinnurétt og starfsmannamál í fyrirtækjum og að mikilvægt er að sinna þessum þætti vel.
Nýr vinnumarkaðsvefur SA var kynntur á námskeiðinu en þar er að finna ítarlega umfjöllun um vinnurétt, kjarasamninga og starfsmannamál frá A-Ö.
Litla Ísland er vettvangur þar sem lítil fyrirtæki vinna saman óháð atvinnugreinum. Slóðin á vef Litla Íslands er www.litlaisland.is en bakhjarlar þess eru SA, SVÞ, SFF, SAF og SI.