Misráðin ákvörðun peningastefnunefndar
Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun ákvörðun um að stýrivextir yrðu óbreyttir, meginvextir bankans eru áfram 3%. Eftir ákvarðanir um samtals 1,5% lækkun stýrivaxta á síðustu fimm vaxtaákvörðunarfundum er mat nefndarinnar að vaxtastigið sé hæfilegt miðað við stöðu þjóðarbúsins. Samtök atvinnulífsins telja ákvörðunina misráðna í ljósi hagtalna sem sýna dýpkandi lægð í efnahagslífinu, fækkun starfa og vaxandi atvinnuleysi. Þá hefur verðbólga hjaðnað og verðbólguvæntingar eru við markmið. Loks hefur peningalegt aðhald aukist frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi þar sem verðtryggðir og óverðtryggðir vextir á mörkuðum hafa hækkað líkt og sést á neðangreindri mynd.
Í ljósi hækkandi markaðsvaxta vekur órökstudd fullyrðing í yfirlýsingu peningastefnunefndar sérstaka athygli:
„Taumhald peningastefnunnar hefur því lítið breyst milli funda.“
Önnur stjórntæki herða aðhaldið enn frekar
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar er ekki minnst á önnur stjórntæki sem áhrif hafa á aðhaldið. Kröfur um eiginfjárauka bankanna er eitt þeirra. Þær eru settar til að auka viðnámsþrótt bankanna en leiða til minni útlánagetu og hærri útlánavaxta. Í maí sl. var eiginfjárauki hækkaður og er áformað að hækka hann enn frekar í janúar nk. Skýtur það skökku við í miðri efnahagslægð á sama tíma og bankarnir berjast í bökkum við að skila ásættanlegri arðsemi í krefjandi rekstrarumhverfi. Miklar eiginfjárkvaðir hafa neikvæð áhrif á aðgang fyrirtækja að lánsfé þar sem útlánsvextir eru hærri en ella. Viðbrögð bankanna eru þau að einn þeirra stærstu stefnir að verulegri minnkun útlána og hinir hafa gefið til kynna versnandi vaxtakjör viðskiptavina. Á fyrstu tíu mánuðum ársins hafa hrein ný útlán innlánsstofnana dregist saman um 30%.
Miklar áskoranir eru framundan í efnahagslífinu og verkefni hagstjórnar er að milda áhrifin af kólnun þess. Hagspár gefa til kynna að hagvöxtur verði óverulegur á þessu og næsta ári. Fjárfesting dregst hratt saman, einkum í atvinnulífinu þar sem hún hefur dregist saman um 20% á árinu. Í ljósi alls þessa eru það mikil vonbrigði að peningastefnunefnd stuðli ekki að áframhaldandi lækkun vaxta.