Minnkandi útstreymi gróðurhúsalofttegunda hérlendis

Útstreymi gróðurhúsalofttegunda er allt öðru vísi saman sett á Íslandi en í flestum öðrum ríkjum. Hér á landi er nánast öll orkuframleiðsla úr endurnýjanlegum orkulindum þar sem losun er hverfandi miðað við brennslu jarðefnaeldsneytis. Eins og sýnt hefur verið fram á í pistlum á vef SA að undanförnu hefur almenn losun á Íslandi dregist saman frá árinu 1990 og er lítil í alþjóðlegum samanburði hvort sem litið er til hlutfalls af þjóðarframleiðslu eða á mann. Engin ástæða er til að ætla annað en að þessi þróun geti haldið áfram hvað alla almenna losun varðar.

Brennsla jarðefnaeldsneytis

Hvarvetna er brennsla jarðefnaeldsneytis til orkuframleiðslu sá þáttur sem þyngst vegur. Á heimsvísu er brennsla jarðefnaeldsneytis talin valda 44% af útstreyminu og er þá litið framhjá samgöngum. Hér er þetta einungis um 13-15% af heildarútstreyminu eins og sjá má í töflunni hér að neðan. Í útstreymistilskipun Evrópusambandsins er athyglinni fyrst og fremst beint að þessu sviði en miðað við þau mörk sem ESB setur á tilskipunin ekki við hér á landi. Fiskimjölsverkmiðjur losuðu um 129 þúsund tonn á árinu 2003 og þar hefur þróunin verið sú að dregið hefur úr losun, en hún varð mest árið 1997 um 205 þúsund tonn og hefur því minnkað um tæp 40%. Hjá þessum verksmiðjum mun þróunin verða áfram í þessa átt því þær hafa verið að koma sér upp rafkötlum og flutningslínur raforkunnar hafa styrkst þannig að með samkeppnishæfu raforkuverði munu fiskimjölsverksmiðjur leitast við að minnka olíunotkun sína. Sama á að geta átt við á mörgum öðrum stöðum.

loftslag4

    

Iðnaðarframleiðsla

Langstærstur hluti útstreymis hér á landi er frá iðnaði og er talið hafa verið um 509 þúsund tonn árið 2003. Að mestu stafar það frá losun í álframleiðslu og járnblendiverksmiðju. Á undanförnum árum hefur dregið úr þessari losun sem var 867 þúsund tonn árið 1990 og 819 þúsund tonn árið 1999. Almennt útstreymi frá iðnaðarferlum hefur því dregist saman um rúm 40% frá 1990. Eitt dæmi um árangur á þessu sviði er hjá ALCAN í Straumsvík en þar hefur losun minnkað úr 6 kg/tonn af framleiddu áli árið 1990 í tæp 2 kg/framleitt tonn árið 2005. Þetta hefur tekist með markvissri stjórnun og þróun þar sem áherslan er lögð á framfarir á öllum sviðum. Nú eru gerðar kröfur um það að nýjar verksmiðjur sem reistar verða hér á landi beiti bestu fáanlegri tækni við framleiðsluna sem þýðir að útstreymi verður eins og best gerist annars staðar og að við nýtingu aðfanga eins og orku og hráefna er beitt fullkomnustu aðferðum sem völ er á. Áður hefur í pistlum hér á vef SA verið fjallað um hve mikið útstreymi gæti verið frá sambærilegum fyrirtækjum sem nýta orku frá jarðefnaeldsneyti við framleiðslu sína. Með þessu er það tryggt að útstreymi gróðurhúsalofttegunda á alþjóðlega vísu verður eins lítið og það getur framast orðið.

Fiskveiðar

Þegar litið er til fiskveiða hefur dregið úr útstreymi þar á undanförnum árum en það náði hámarki árið 1996 og var þá 837 þúsund tonn en var 20% minna árið 2003. Ástæða er til að ætla að framhald verði á þessari þróun en stærstan hlut af henni á aflamarkskerfið þar sem vitað er hve mikils má afla af hverri tegund. Á síðustu árum hafa fyrirtæki nýtt upplýsingatækni í stórauknum mæli til stýringa á veiðum þannig að allar upplýsingar um afla, samsetningu, stærð og svo framvegis liggja fyrir eftir veiðisvæðum og árstíma. Í framhaldinu er svo stefnt að hármarksnýtingu aflakvóta fyrirtækjanna með lágmörkun kostnaðar að leiðarljósi. Hinn nýgerði samningur um veiðar á kolmunna mun einnig hafa áhrif í þessa veru þar sem kapphlaupi um hlutdeild í veiðum er lokið. Til lengri tíma litið hefur hönnun skipanna mest áhrif en þar er nú að finna þekkingu á því hvernig best sé að hanna skip til að hámarka orkunýtingu og eins munu orkustýringarkerfi um borð í skipum hafa áhrif í sömu átt.

Samgöngur

Samgöngur valda um 20-23% af öllu útstreymi hér á landi sem er mun hærra hlutfall en á heimsvísu þar sem hlutfallið er talið vera um 13,5%. Hér skiptir miklu máli að samgöngur séu greiðar og vegalengdir stuttar og vel færar og að hvatt sé til notkunar sparneytinna bifreiða. Ætla má að smám saman nýti bifreiðar eldsneyti betur og betur en á síðustu árum hafa orðið miklar framfarir á þessu sviði. Endurnýjun bílaflotans mun svo skipta miklu máli um það hversu hratt þessi þróun gengur fram hér á landi. Frá 1990 til ársins 2003 jókst útstreymi frá samgöngum um 15% en fólksbílum fjölgaði um 40%, hópbílum um tæp 30% og sendibílum um 140% svo dæmi séu nefnd.

Úrgangur

Losun vegna úrgangs hefur aukist hratt á undanförnum árum en á næstu árum munu kröfur um meðhöndlun og endurnýtingu úrgangs aukast verulega og minnka það magn sem heimilað verður að urða en það hefur jafnframt þau áhrif að minnka útstreymi frá urðunarstöðum.

Skógrækt og landgræðsla

Landvernd hefur sýnt fram á það að með aukinni kolefnisbindingu hér á landi (landgræðsla og skógrækt) má binda allt að 1 milljón tonna af CO2 á ári innan 20 til 30 ára.

Niðurstaða

Almennt má því segja að sé litið til allrar almennrar losunar gróðurhúsalofttegunda hafi þróunin verið mjög jákvæð og engin ástæða til að ætla annað en að svo geti verið áfram. Mikilvægt er að beita almennum aðgerðum til að ná árangri á þessu sviði svo sem með upplýsingum og fræðslu, með því að veita fé til rannsókna og tækniþróunar sem leitt getur til minna útstreymis og með því að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum sem draga úr útstreymi.

Íslendingar eru í þeirri sérstöku stöðu að ef öll efnahagsstarfsemi legðist af hér á landi eru allar líkur á því að útstreymi gróðurhúsalofttegunda í heiminum ykist því gera má ráð fyrir að stór hluti af ál- og járnblendiframleiðslu landsins yrði framleitt með orku frá jarðefnaeldsneyti. Þannig má með segja að Ísland sé nú þegar það sem kallað er kolefnishlutlaust land. Án þess að það hafi verið kannað sérstaklega er ólíklegt að unnt sé finna mörg önnur ríki sem þetta getur gilt um.

Upplýsingar um útstreymi hér á landi eru teknar af vef Umhverfisstofnunar, um alþjóðlega losun úr skýrslu World Resources Institute (http://www.wri.org) sem nefnist "Navigating the Numbers" (2005), um bílaflotann af vef Hagstofunnar og um kolefnisbindingu úr skýrslu Landverndar sem nefnist "Aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi" (september 2005). Upplýsingar um útstreymi hjá verksmiðju ALCAN er úr fyrirlestri Hildar Atladóttur á Umhverfisþingi í nóvember 2005 og er á vef umhverfisráðuneytisins.