Minn maður eða besta liðið?
Nýverið hélt Guðmundur Guðmundsson, þjálfari karlalandsliðsins í handbolta, utan með öflugan hóp vel samstilltra landsliðsmanna til þátttöku í heimsmeistaramótinu í handbolta. Að baki er mikil vinna og yfirlega við að setja saman réttan hóp fyrir þetta mikilvæga verkefni þar sem valinn maður þarf að vera í hverri stöðu. Stöðum sem margar hverjar eru ólíkar líkt og einstaklingarnir sem þær skipa. Heildarárangur liðsins veltur væntanlega á því hversu vel okkur tekst að manna hverja stöðu á réttum forsendum.
Í viðleitni til að gera betur í stjórnháttum fyrirtækja hafa framsýnir fjárfestar talað fyrir tilvist tilnefningarnefnda og í nokkrum fyrirtækjum er nú unnið að því að móta verklag og festa þær í sessi. Þegar hafa 13 af 18 félögum í Kauphöllinni tekið upp tilnefningarnefndir. Það getur auðvitað verið með tilnefninganefndir eins og lýðræðið sjálft að við upplifum það um tíma sem vesen, þetta tekur tíma og eykur jafnvel kostnað. Það er hins vegar dýrmætt tækifæri sem þarna leynist fyrir fjárfesta, fyrirtæki og atvinnulífið í heild sinni til að auka fagmennsku, framþróun og trúðverðugleika.
Það er áhugavert til þess að hugsa að tekin yrði upp aðferðafræði við val í landsliðshóp svipuð þeirri nálgun sem notuð hefur verið hingað til við skipan í stjórnir fyrirtækja.
Tilnefningarnefndir skapa farveg fyrir aðila sem áhuga hafa á að sinna stjórnarstörfum, telja sig hafa verðmætt innlegg í því sambandi og vilja bjóða fram krafta sína. Verklag sem hefur verið ógagnsætt og óskilvirkt verður uppi á yfirborðinu auk þess sem þetta getur orðið til að auka tiltrú erlendra fjárfesta sem áhuga hafa á að taka þátt í atvinnuuppbyggingu hér á landi.
Fyrir mestu er þó að öflugt starf í þessum nefndum eykur líkur á því að stjórnir verði settar saman sem hópur öflugra einstaklinga sem í sameiningu búa yfir þekkingu á öllum helstu viðfangsefnum og áskorunum sem blasa við hjá fyrirtækinu hverju sinni. Það má þó ekki skilja það svo að með tilnefningarnefndum sé dregið úr ábyrgð eða valdi hluthafa til að hafa áhrif á stjórnarkjör. Tilnefningarnefnd er þvert á móti verðmætt verkfæri fyrir hluthafa sem geta falið henni undirbúnings og greiningarvinnu sem byggir á heildarmyndinni og upplýsingum m.a. frá hluthöfum, stjórnarmönnum og starfsfólki um stöðu og framtíðarhorfur. Á þeirri vinnu byggja tillögur sem kynntar eru hluthöfum þar sem verðmæti tillögunnar felst í samsetningunni ekki síður en einstaklingunum. Ákvörðun um að samþykkja tillögu slíkrar nefndar, eða gera breytingar, verður áfram í höndum hluthafa sem kjósa stjórn eins og verið hefur.
Það er áhugavert til þess að hugsa að tekin yrði upp aðferðafræði við val í landsliðshóp svipuð þeirri nálgun sem notuð hefur verið hingað til við skipan í stjórnir fyrirtækja. Þannig gætum við hugsað okkur að öll fyrstu deildar lið gætu valið sinn besta mann og sent Guðmundi í hópinn. Hópur bestu einstaklinga hlýtur að skapa besta liðið – eða hvað? Tvennt þarf að koma til þegar öflug lið eru sett saman. Annars vegar þurfa einstaklingarnir sem liðið skipa að uppfylla ákveðin viðmið um hæfni en hins vegar þarf að tryggja að liðið búi yfir einstaklingum í hverja stöðu sem eru, eins og áður kom fram, ólíkar. Samsetning liðsins verður með getu og hæfni að endurspegla þær væntingar sem gerðar eru til liðsins í heild sinni og þau fjölmörgu hlutverk sem þar þarf að sinna. Það er ólíklegt að við finnum það allt í einum einstaklingi enda væri lausnin þá væntanlega falin í eins manns stjórnum. Heildargeta, þekking og hæfni liðsins getur orðið meiri en samanlögð geta einstaklingana ef vel er haldið á spilum. Það má því segja að lykillinn að árangri liggi í réttri samsetningu fremur en í mínum manni, í handbolta sem og í stjórnum og að tækifærin felist í tilnefningarnefndum.
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, verkefnastjóri á samkeppnishæfnisviði SA.