Milljarðareikningur sendur fyrirtækjum án lagasetningar

Tekjur sveitarfélaga af fasteignasköttum hækka um 2,3 milljarða króna milli áranna 2015 og 2016. Þar af hækka tekjur af atvinnuhúsnæði um 1,8 milljarða eða um 10% á milli ára. Á sama tíma hækkaði fasteignamat atvinnuhúsnæðis einungis um ríflega 2%. Ástæða hækkunarinnar er breytt aðferðafræði Þjóðskrár Íslands. Þetta kemur fram í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins en Samtök atvinnulífsins hafa mótmælt harðlega og sett fyrirvara um lögmæti breytinganna.

Bergþóra Halldórsdóttir, lögmaður hjá SA segir í samtali við Viðskiptablaðið að búið sé að hækka skattbyrði atvinnulífsins um milljarða króna án lagasetningar. T.d. hækkuðu tekjur Reykjavíkurborgar af atvinnuhúsnæði um 1,1 milljarð á milli ára.

Sveitarfélögin fá samanlagt 35,4 milljarða króna vegna fasteignaskatta á þessu ári, þar af eru tekjur vegna atvinnuhúsnæðis 18,9 milljarðar.

Í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands megi að mestu leyti rekja hækkun tekna vegna fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði til breytinga á matsaðferðum. Í fyrra hafi verið byrjað að beita nýrri aðferðafræði við útreikninga á fasteignamati atvinnuhúsnæðis.

„Í stað þess að fasteignamat atvinnuhúsnæðis endurspegli endursöluverðmæti eignar út frá þinglýstum kaupsamningum eru nú leigutekjur einnig lagðar til grundvallar. Í hinu nýja mati er til dæmis horft til gæða húsnæðis, ástands og staðsetningar. Þessi nýja matsaðferð var fyrst notuð vegna fasteignamats fyrir árið 2015 og olli hún því að fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkaði um 12,4% á landinu öllu eða 14,1% á höfuðborgarsvæðinu og 8,9% á landsbyggðinni.

Enn fremur leiddi þessi nýja aðferðafræði til þess að fasteignamat tæplega 70% alls skrifstofu- og verslunarhúsnæðis í Reykjavík hækkaði um 18% í fyrra. Vegna þess hversu mikið matið hækkaði árið 2015 var ákveðið að hækkunin tæki gildi í áföngum og það skýrir þessa miklu tekjuaukningu sveitarfélaga vegna skatta á atvinnuhúsnæði í ár.

Bergþóra Halldórsdóttir, lögmaður hjá SA, segir að samtökin hafi sett fyrirvara við lögmæti hinnar nýju aðferðafræði. Að auki telji samtökin að ríkisstofnun eigi ekki að geta tekið ákvörðun um að breyta útreikningi á skattstofni þannig að skattbyrði atvinnulífsins hækki um milljarða króna án lagasetningar. Breytingarnar hafi valdið skattahækkunum sem ekki hafi verið veitt sérstök heimild fyrir á Alþingi og hún viti til þess að eigendur atvinnuhúsnæðis hafi til skoðunar að bera málið undir dómstóla.“

Samkvæmt Þjóðskrá Íslands hækkar fasteignamat að meðaltali um 7,8% á næsta ári og er þá bæði átt við íbúðar- og atvinnuhúsnæði.

Sjá nánar ítarlega umfjöllun í Viðskiptablaðinu 24. nóvember 2016.

Áskrifendur geta nálgast blaðið á vef vb.is