Miklar launahækkanir í sögulegu atvinnuleysi
Undanfarið hafa heyrst raddir sem tala fyrir eftirspurnar- eða launadrifnum hagvexti sem leiðinni út úr kófinu. Með öðrum orðum að launahækkanir muni koma fyrirtækjum til góða þar sem þær örvi eftirspurn og neyslu. Þessar kenningar eru í besta falli hæpnar.
Launavísitala Hagstofunnar hefur hækkað um 7,1% á undanförnum 12 mánuðum. Miðað við ágústgögn Hagstofunnar má sjá að hækkanir á almennum markaði hafa mælst 6,0%, 7,5% hjá ríkinu og 9,0% hjá sveitarfélögum eins og fjallað er um á vef SA. Leiðrétt fyrir þróun verðlags mælist nú 3,4% aukning kaupmáttar launa. Á sama tíma og laun hækka markvert eru þúsundir að tapa störfum sínum. Í október náði atvinnuleysi nýjum hæðum, en almennt atvinnuleysi stóð þá í 10% samkvæmt Vinnumálastofnun og skilur enga atvinnugrein eftir ósnerta.
Í heimshagsögunni heyrir líklega til undantekninga að svo miklar launahækkanir mælist á sama tíma og atvinnuleysi eykst svo skarpt. Í því samhengi er áhugavert að bera þróunina saman við síðustu efnahagskreppu, en mánaðarlegt atvinnuleysi fór þá hæst í 9,3%. Samhliða auknu atvinnuleysi dró verulega úr launahækkunum, en þá náðist jafnframt sátt um að frysta launahækkanir til að stemma stigu við auknu atvinnuleysi jafnvel þótt verðbólga hafi verið mikil. Þróunin á vinnumarkaði er því nokkuð ólík milli þessara tveggja tímabila.
Kortavelta 140 milljörðum lægri milli ára
Heimsfaraldurinn og sóttvarnaraðgerðir honum tengdum hafa valdið verulegum tekjubresti hjá fjölda fyrirtækja. Kortavelta innlendra og erlendra korta hérlendis á fyrstu 10 mánuðum ársins hefur verið um 140 milljörðum lægri að raunvirði en á sama tímabili í fyrra. Sé einungis horft til erlendrar kortaveltu hefur hún verið um 150 milljörðum lægri og sjást þar glögglega áhrif takmarkana á landamærum og minni ferðavilja vegna útbreiðslu veirunnar.
Vegna þessa ófyrirsjáanlega tekjubrests hafa fyrirtæki á síðustu 10 mánuðum þegar neyðst til að segja upp meira en 17 þúsund manns og hafa staðgreiðsluskyldar launagreiðslur því verið samtals 20 milljörðum lægri frá mars til október á þessu ári miðað við sama tímabil í fyrra. Aðstæður þorra fyrirtækja til mikilla launahækkana nú um áramótin eru því tæpast æskilegar.
Aukin verðbólga og tvær meginskýringar
Krafa verkalýðshreyfingarinnar hefur verið sú að umsamdar launahækkanir skili sér hvorki út í verðlag né leiði til aukins atvinnuleysis. Erfitt er þó að sjá hvernig sá fjöldi fyrirtækja, sem nú upplifir algjöran tekjubrest, eigi að geta staðið undir myndarlegum launahækkunum um næstu áramót án þess að eitthvað gefi eftir.
Þrátt fyrir miklar launahækkanir og talsverða gengisveikingu, hefur verðbólga haldist óvenju lítil að undanförnu, en verðbólguþrýstingur eykst þó um þessar mundir. Stjórnendur nefna jafnframt þessa tvo þætti, launakostnað og aðfangaverð, sem helstu skýringar að baki verðhækkana vöru og þjónustu ef marka má niðurstöður könnunar forsvarsmanna 400 stærstu fyrirtækja landsins frá því í september.
Áhrifunum er misskipt
Á sama tíma og 20 þúsund manns eru án vinnu hækka laun þeirra sem halda sínu starfi um ríflega 7% milli ára og kaupmáttur með. Takmörkuð tækifæri eru hins vegar til neyslu vegna sóttvarnaraðgerða. Birtingarmynd þessa má sjá meðal annars í verulegum auknum sparnaði heimila, en hann mælist nú yfir 20% af ráðstöfunartekjum sem er um tvöfalt hærra en fimm ára meðaltal.
Launahækkanir í ríkjandi ástandi eru af þeim sökum til þess fallnar að auka enn frekar á sparnað þeirra heimila þar sem atvinna er óskert. Jafnframt er erfitt að sjá hvernig þau fyrirtæki, sem enn eru óstarfhæf vegna ferða- og samkomutakmarkana, myndu njóta góðs af frekari launahækkunum.
Það er því afar hæpið að forsendur séu fyrir því sem verkalýðshreyfingin hefur kallað launadrifinn hagvöxt. Líklegra er að slík stefna myndi skila sér í meiri sparnaði þeirra sem ekki hafa orðið fyrir atvinnumissi vegna veirunnar, auknu atvinnuleysi og meiri ójöfnuði.
Hátt í 30 þúsund atvinnulausir um jólin?
Hvar stöndum við þá? Hagkerfið er í óvenjulegri stöðu um þessar mundir; framleiðsluhliðin er í járnum vegna samkomutakmarkana og annarra sóttvarnaraðgerða. Atvinnuleysi er í sögulegum hæðum og fer vaxandi. Spá Vinnumálastofnunar gerir ráð fyrir að um 27-28 þúsund manns verði komnir í hóp atvinnuleitenda um hátíðirnar ef að líkum lætur. Þá gerir ný spá Seðlabankans einnig ráð fyrir því að atvinnuleysi aukist enn og verði þrálátara en áður var talið.
Strangar sóttvarnaraðgerðir eru enn í gildi og mikil óvissa ríkir um framhaldið þrátt fyrir líklega tilkomu nýs bóluefnis. Mörg fyrirtæki verða því nauðbeygð til að ráðast í hagræðingaraðgerðir og frekari uppsagnir á næstu mánuðum. Sértækar aðgerðir yfirvalda hafa miðað að því að forða fjöldagjaldþrotum og verja störf að því marki sem raunhæft er, en eins og fram kemur í Peningamálum Seðlabankans: „Þótt aðgerðir stjórnvalda mildi það högg sem fyrirtækin hefðu annars orðið fyrir er ljóst að umsamdar launahækkanir í upphafi næsta árs munu reynast mörgum þeirra erfiðar.”
Það gefur augaleið að atvinnustigi verður ekki viðhaldið með frekari launahækkunum á meðan staðan er þessi. Það hlýtur því að sæta furðu að þeir sem láta sig ójöfnuð varða tali fyrir launadrifnum hagvexti þegar nær 30 þúsund manns munu vera án atvinnu þessi jólin. Það er ólíklegt að umbjóðendur stéttarfélaga, þeir sem nú eru án atvinnu, telji hagsmunum sínum best borgið með slíkri stefnu en launahækkanir í 12% atvinnuleysi er einmitt sá þáttur sem mun hamla fjölgun starfa hvað mest á komandi misserum.