Miklar hækkanir falla hugsanlega niður

Kaupmáttarforsenda gildandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hefur staðist að mati Samtaka atvinnulífsins. Mat á forsendum samninganna stendur nú yfir af hálfu SA og ASÍ. Samtök atvinnulífsins munu ekki hafa frumkvæði að því að segja samningunum upp en haldi þeir gildi sínu munu almenn laun hækka um 3,25% þann 1. febrúar nk. auk þess sem lágmarks mánaðarlaun hækka enn frekar, eða um 11.000 kr. Hækkun lágmarkslauna nemur því 5,7%.  Lægsti kauptaxti verkafólks hækkar um 6,1%. Taxtar verslunarfólks hækka um 4,9-5,9% en taxtar iðnaðarmanna um 3,6-4,4% eins og sjá má í meðfylgjandi töflu á vef SA.

Smelltu til að stækka

Ofangreindar kauphækkanir koma ekki til framkvæmda verði kjarasamningum sagt upp frá 1. febrúrar.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir að þær forsendur sem hafi brostið í samningunum; lítill hagvöxtur, litlar fjárfestingar og skattahækkanir komi illa niður á fyrirtækjunum.  Svigrúm þeirra til að hækka laun nú sé minna en þegar samið var í maí 2011.

Stjórnvöld hafa ekki staðið við að lækka tryggingagjald í samræmi við minnkandi atvinnuleysi og rúma fjárhagsstöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Launagreiðendur á Íslandi þurfa því að borga aukalega um 6 milljarða króna á árinu 2013 til ríkisins sem verður til þess að svigrúm til að hækka laun minnkar, færri verða ráðnir í ný störf og verðbólga hjaðni minna en ella.

Lægstu laun hafa hækkað umfram almenn laun
Á undanförnum árum hefur áhersla verið lögð sérstaka hækkun lægstu launa. Þannig hafa lágmarkslaun rúmlega tvöfaldast frá 2004. Frá ársbyrjun 2004 til ársloka 2012 hækkaði launavísitala Hagstofunnar um 79% og kaupmáttur launa jókst um 2,4%. Lágmarkslaunin hækkuðu mun meira, eða um rúm 107%, og kaupmáttur þeirra jókst um tæplega 19%. Lágmarkslaunin eru þannig mun hærra hlutfall af greiddum launum en þau voru fyrir fáum árum.

Samkvæmt gildandi kjarasamningum eiga lágmarkslaunin að hækka í 204.000 kr. þann 1. febrúar eða um 5,7%. Kaupmáttur lágmarkslauna mun aukast um 2,0% á árinu sé miðað við síðustu verðbólguspá Seðlabankans þar sem spáð er 3,4% verðbólgu frá upphafi til loka ársins 2013. Kaupmáttur lágmarkslauna mun einnig aukast miðað við verðbólguspár annarra spáaðila sem gera ráð fyrir heldur meiri verðbólgu en Seðlabankinn.

Hætta á mikilli  verðbólgu
Samtök atvinnulífsins hafa varað við því að enn frekari hækkun launa en samið hefur verið um þann 1. febrúar nk. myndi kynda undir verðbólgu og á endanum skerða kaupmátt en ekki auka hann. Ísland er sker sig úr öðrum ríkjum hvað varðar miklar launahækkanir og háa verðbólgu.

Laun á Íslandi hafa hækkað þrefalt meira en á Norðurlöndum síðustu þrjú ár skv. nýlegri skýrslu OECD. Á árabilinu 2010 til 2012 hækkuðu laun á Íslandi um 21,5% en til samanburðar hækkuðu laun á Norðurlöndum að meðaltali um 8,7% á þessum þremur árum. Í Evrópusambandinu hækkuðu laun að meðaltali um 5,1% og í OECD-ríkjunum um 6,5%. Olíuríkið Noregur kemur næst Íslandi í launahækkunum en þar ríkir mikil þensla á vinnumarkaði og eftirspurn eftir starfsfólki.

Tengt efni:

Lágmarkslaun hafa rúmlega tvöfaldast frá 2004

Tryggingagjald ætti að lækka um 0,75% um áramótin

Laun hafa hækkað þrefalt meira á Íslandi