Mikilvægt innlegg

Hvítbók mennta- og menningarmálaráðherra er mikilvægt innlegg í nauðsynlegar umbætur á menntakerfi landsins. Samtök atvinnulífsins fagna sérstakri  og tímabærri áherslu á iðn- og starfsnám, styttingu námstíma og síðast en ekki síst áherslu á aukna læsi og eflingu lestrarkennslu.

Eins og samtökin hafa ítrekað bent á þá eru miklir þjóðhagslegir hagsmunir fólgnir í betri nýtingu námstíma til loka framhaldsskóla og að iðn- og starfsnám verði eflt til muna. Það sama gildir um lestur en alþjóðlegar kannanir um menntun og hæfni  sýna að sterk tengsl eru á milli læsis og efnahagslegra sem félagslegra þátta. Fyrir atvinnulífið er mikilvægt að strax við upphaf grunnskóla sé tekið á þeirri grundvallarhæfni sem lestur tekur til. Það mun hafa m.a. þau áhrif að einstaklingar verði líklegri til að finna hæfileikum sínum farveg innan skólakerfisins og síðar úti á vinnumarkaðnum.

Til að þessar breytingar nái fram að ganga þarf víðtækt samráð hagsmunaaðila. Samtök atvinnulífsins eru reiðubúin, nú sem endranær, til að koma að vinnu við framkvæmd Hvítbókar. Mikilvægt er að innleiða þessar breytingar samhliða markmiðum settum til langs tíma sem hagsmunaraðilar geti unnið sameiginlega að og eru ekki háð því að þeim sé kollvarpað á 4 ára fresti.

Ef breytingarnar ná fram að ganga mun það þýða hagkvæmara og árangursdrifnara menntakerfi. Stjórnvöld verða hins vegar í upphafi að gera ráð fyrir að stefnumótun og framkvæmd sem fylgir Hvítbók mun kosta tíma og fjármagn. Það þýðir ekki sjálfkrafa aukningu ríkissútgjalda. Er mikilvægt að fjármunum hins opinbera verði forgangsraðað í þágu menntunar og ráðherra málaflokksins fái þann stuðning hjá ríkisstjórn og Alþingi sem til þarf svo Hvítbókin verði meira en falleg orð á blaði.  

Hagsmunirnir eru miklir – allt frá vellíðan og fleiri tækifærum barnanna okkar innan menntakerfisins til aukinnar samkeppnishæfni íslensks samfélags. Greiningarnar eru til staðar, aðgerða er þörf. Byrjum því strax.