Mikilvægt að stytta nám
Það yrði verulegur ávinningur af því ef stúdentar á Íslandi útskrifuðust að jafnaði 18 ára, líkt og í flestum nágrannalöndum okkar, í stað 20 ára segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtali við Morgunblaðið. Hann telur að stytta eigi hvort skólastig um eitt ár, bæði grunn- og framhaldsskólastigið þannig að þrjú ár verði eðlilegur tími til að ljúka námi til stúdentsprófs. Bjóða megi upp á upp á sveigjanleika fyrir þá nemendur sem þurfi lengri tíma. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, telur mikilvægt að stytta nám að háskólastigi.
"Við erum tilbúin að skoða alla möguleika og útfærslur á breytingum," segir Illugi í samtali við Morgunblaðið fimmtudaginn 20. júní. "Þarna er á ferðinni stórt efnahagslegt mál fyrir þjóðina og það er ekki hægt annað en að horfa til þess að við tökum lengri tíma heldur en aðrar þjóðir að klára nám að háskólastigi. Ekkert land í OECD tekur jafn langan tíma að klára nám að háskólastigi og Ísland."
Illugi segir jafnframt sláandi að einungis 45% nemenda klári framhaldsskólanám á réttum tíma, eða fjórum árum eins og námið er í dag. "Það er mun lægri prósentutala en í löndunum í kringum okkur. Vandinn er því í raun og veru stærri en margir halda því við erum almennt ekki að útskrifa stúdenta 20 ára, við útskrifum rúmlega helming þeirra eldri en 20 ára og erum því að gera þetta allt mun hægar en ásættanlegt er."
Vorið 2012 gáfu Samtök atvinnulífsins út ítarlega stefnumörkun undir heitinu Uppfærum Ísland. Þar er að finna tillögur sem miða að því að styrkja menntakerfið og efla atvinnulífið með aukinni samvinnu skóla og fyrirtækja. Þar er m.a. fjallað um mikilvægi þess að stytta grunn- og framhaldsskóla um tvö ár. Stefnumörkunin byggir á umræðu um 100 stjórnenda úr íslensku atvinnulífi en fyrirtæki og samtök í atvinnulífinu kalla eftir sameiginlegri stefnumótun með stjórnvöldum um framtíð og þróun menntakerfisins.
Í ítarlegu viðtali við við Viðskiptablað Morgunblaðsins 20. júní segir Þorsteinn að menntamál skipti atvinnulífið sífellt meira máli. Samkeppnishæfni þess til lengri tíma felist ekki hvað síst í vel menntuðu starfsfólki. Því hafi Samtök atvinnulífsins lagt stóraukna áherslu á þennan málaflokk í sínu starfi:
"Ég velti fyrir mér framleiðni menntakerfisins hjá okkur. Við erum með dýrasta grunnskólastigið og eigum að geta gert mun betur þar. Við þurfum að leggja ríka áherslu á að auka skilvirkni námsins og þar með framleiðnina í skólakerfinu. Það yrði strax verulegur ávinningur ef okkur tækist að útskrifa stúdenta að jafnaði 18 ára, líkt og í flestum nágrannalöndum okkar, í stað 20 ára."
Þorsteinn vill stytta hvort skólastig um eitt ár og segir Kvennaskólann hafa prófað valkvætt þriggja ára nám með ágætis árangri, því þar útskrifist um 70% nemenda á þremur árum. "Ein leið er að hafa það valkvætt en við ættum að stefna að því að þrjú ár verði eðlilegur tími til að ljúka námi til stúdentsprófs. En það er ekkert að því að bjóða upp á sveigjanleika fyrir þá nemendur sem þess þurfa.
Það er síðan ekki flókið mál að stytta grunnskólastigið um eitt ár. Bæði mætti byrja fyrr eins og mörg önnur lönd í kringum okkur gera, þ.e.a.s. að hefja skólaskyldu fimm ára en ekki sex. Snjallt væri að hefja fyrsta námið innan veggja leikskólans. Menntakerfið okkar hefur m.a. verið gagnrýnt fyrir mikla tvítekningu og sem dæmi um það þá fer hlutfall nemenda sem kemur læs inn í fyrsta bekk grunnskóla sífellt hækkandi."
Þorsteinn segir mikilvægt að kanna umfang og ástæður brottfalls úr skóla betur. "Við mælum brottfall ekki með sama hætti og í nágrannalöndunum og virðumst ofmeta það að einhverju marki. Útreikninga á brottfalli þarf því að færa til samræmis við samanburðarlönd." Aðrar leiðir til að minnka brottfall eru að auka fjölbreytni í menntakerfinu, að mati Þorsteins. "Við ættum að auka fjölbreytni og valmöguleika í námi, m.a. með faggildingu eða prófviðurkenningu í styttri námsleiðum. Ef við horfum t.d. á iðnnámið þá er vel mögulegt að skipta ýmsum námsleiðum þar upp í fleiri áfanga, sem hver um sig gefur tiltekin starfsréttindi. Nemendur geta þá valið hvort þeir ljúki þeim öllum eða afmarki sig við styttri og sérhæfðari leið, án þess þó að útiloka möguleika á að halda áfram námi síðar. Það gerir það að verkum að möguleikarnir verða fleiri og námsframboð fjölbreyttara fyrir nemendur. Þannig geta fleiri fundið nám við sitt hæfi sem draga ætti úr brottfallinu. Ég held að það séu fjölmargir möguleikar til að skipta námi upp með þessum hætti, bæði á framhalds- og háskólastiginu."
Þorsteinn segir núgildandi löggjöf heimila slíkan sveigjanleika og því sé ekkert að vanbúnaði.
Tengt efni: