Mikilvæg vaxtalækkun gegn efnahagssamdrætti
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka stýrivexti úr 4% í 3,75%. Er þetta önnur vaxtalækkun bankans á skömmum tíma en vextir lækkuðu um 0,5% í lok maí. Að mati peningastefnunefndar hafa efnahagshorfur lítið breyst milli funda þó vísbendingar séu þess efnis að innlend eftirspurn sé heldur sterkari en áður var talið og horfur á að samdráttur í ferðaþjónustunni verði meiri.
Framundan er samdráttur í íslensku efnahagslífi sem mun reyna á bæði heimili og fyrirtæki. Allar opinberar hagspár gera ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði neikvæður og vísbendingar um að áfram verði slaki í hagkerfinu á því næsta. Mikilvægt er því að Seðlabankinn og stjórnvöld leggi sitt af mörkum til að milda niðursveifluna. Lægri vextir auka ráðstöfunartekjur heimila og örva fjárfestingu og nýsköpun. Lægri vextir skapa auk þess svigrúm hjá fyrirtækjum til að mæta hækkandi launakostnaði vegna Lífskjarasamninga. Vaxtalækkun Seðlabankans er mikilvægt innlegg í þá vegferð að styðja við heimili og fyrirtæki í landinu og styrkja þannig stoðir efnahagslífsins og bæta lífskjör.
Frekari vaxtalækkun nauðsynleg og rýmið meira
Frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi, sem var haldinn í lok maí, hefur verðbólga hjaðnað og verðbólguvæntingar fyrirtækja og markaðsaðila lækkað meira en sem nemur vaxtalækkun dagsins í dag. Miðað við þá þróun er aðhald peningastefnunnar að aukast þrátt fyrir boðaða vaxtalækkun. Ljóst má vera að rými til vaxtalækkunar er meira og hefði verið æskilegra að tryggja slaka í aðhaldi peningastefnunnar í ljósi þess að efnahagsslaka sem framundan er.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar stendur orðrétt:
„Verðbólga hefur enn sem komið er verið í samræmi við síðustu spá Seðlabankans en samkvæmt spánni hefur hún náð hámarki og mun hjaðna í átt að markmiði þegar líður á árið. Frekari lækkun gengis krónunnar gæti þó sett strik í þann reikning. Verðbólguvæntingar hafa lækkað frá því sem þær voru í kringum síðasta fund nefndarinnar. Taumhald peningastefnunnar hefur því aukist á ný.“
Seðlabankinn hefur töluvert rými til að bregðast við efnahagssamdrættinum og hefði verið æskilegra að stýrivextir hefðu lækkað meira. Boðuð vaxtalækkun er hins vegar mikilvæg í þeim samdrætti sem framundan er.
Það er bæði nauðsynlegt og æskilegt að vextir lækki áfram á næsta vaxtaákvörðunarfundi sem verður haldinn 28. ágúst næstkomandi. Gefið að verðbólguvæntingar haldist áfram nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans.