Menntaverðlaun atvinnulífsins 2016 – óskað eftir tilnefningum

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 28. janúar. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála fyrir 11. desember nk. 

Verðlaun eru veitt í tveimur flokkum, menntafyrirtæki og menntasproti ársins 2016, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

Skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta verkefni. Vinsamlegast skilið greinargerð, að hámarki þrjár A4 síður, þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir þau viðmið sem liggja til grundvallar. Ekki þarf að senda eða prenta fylgiskjöl.

Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru m.a.:

• að skipulögð fræðsla sé innan fyrirtækisins

• að stuðlað sé að markvissri menntun og fræðslu

• að sem flest starfsfólk taki virkan þátt

• að hvatning til frekara náms sé til staðar

Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru m.a.:

• að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu, innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja

• samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu, innan sem utan fyrirtækja

Tilnefningar sendist í tölvupósti á sa@sa.is eigi síðar en 11. desember nk. Ekki er tekið við tilnefningum eða gögnum eftir þann tíma.

Verðlaunin verða veitt á menntadegi atvinnulífsins 28. janúar en þetta er í þriðja sinn sem dagurinn er haldinn. Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður þar í kastljósinu en dagurinn er samstarfsverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samorku, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Er þitt fyrirtæki menntafyrirtæki ársins?
Það verður forvitnilegt að sjá hvaða fyrirtæki bætast í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa hlotið verðlaunin til þessa. Marel er menntafyrirtæki ársins 2015 og Síldarvinnslan á Neskaupstað menntasproti ársins. Samskip var fyrsta fyrirtækið til að hljóta menntaverðlaunin 2014 og ferðaþjónustufyrirtækið Nordic Visitor var fyrsti menntasprotinn.

Hægt er að horfa á upptöku frá afhendingu menntaverðlauna atvinnulífsins 2015 hér að neðan ásamt myndböndum um fjölbreytta starfsmenntun fyrirtækja.

Menntaverðlaun atvinnulífsins 2015

Menntaverðlaun atvinnulífsins 2014

undefined